top of page

Einkunnir

Ábyrgðaraðili: Borgarbyggð

Fróðleikur

 

Einkunnir draga nafn sitt af þremur klettaborgum sem rísa upp af mýrlendi sem er skammt fyrir ofan Borgarnes. Orðið einkunn er fornt í málinu og var notað um auðkenni í landslagi. Klettaborgirnar sem svæðið er kennt við, sjást víða að og af Syðri - Einkunn er víðsýnt um allan Borgarfjörð, Borgarfjarðardali og Mýrar. 
 

Staðsetning, aðgengi og stígar

Að fólkvanginum liggur 2,5 km malarvegur, frá þjóðvegi eitt í gegnun hesthúsahverfi hestamannafélagsins Skugga, gegnt golfvellinum að Hamri.

Göngustígur hefst við bílastæðið við Álatjörn, í Einkunnum. Stígurinn liggur upp á Syðri-Einkunn þar sem eru Landnámsvarða og útsýnisskífa. Af Syðri-Einkunn er mjög víðsýnt, m.a. er hægt að sjá fimm jökla. Þaðan liggur stikaður stígur með skurði sem er landamerki á milli Borgar og Einkunna. Þegar komið er að þverskurði er göngufólk komið að landamerkjum við Kárastaði og halda þá í vestur átt um holt og birkirjóður eftir stikaðri leið. 

 

Á göngunni má sjá tóftir sem eru líklega af beitarhúsum, á að minnsta kosti tveimur stöðum. Á einu holtinu eru tóftir af gömlu fylgsni sem refaskyttur hafa líklega komið sér upp. Þetta er falleg leið með góðum útsýnisstöðum þar sem víðsýnt er um Borgarfjörð og Mýrar.


Þegar komið er inn í land Borgar taka við mýrar og þarf göngufólk því að vera vel skóað til ferðarinnar. Gönguleiðin endar á klettaborginni við Borg þar sem má sjá árangur skógræktar prestsins að Borg, séra Þorbjörns Hlyns og í flóanum upp af Borg má sjá um 10 þúsund plöntur sem grunnskólabörn úr Borgarnesi hafa plantað.

 

Lýsing

Landslagið í fólkvanginum er fagurt; jökulsvorfnar klettaborgir, vöxtulegur skógur, lífvænlegar mýrar og dýra- og plöntulíf all fjölbreytt.

Fólkvangurinn er 273 hektarar að stærð og er að stærstum hluta í eigu Borgarbyggðar. Fólkvangurinn nær frá landi Borgar norður að Háfsvatni og Háfslækur rennur á vesturmörkum hans. Frá Háfsvatni eru austurmörk fólkvangsins merki Hamars og Holts og þaðan í girðingu um skátaskálann sem er í suðausturhorni friðlandsins. Innan fólkvangsins er Álatjörn. Umhverfi tjarnarinnar er fallegt og kjörið til útivistar og náttúruskoðunar. Tjörnin var ræst fram 1973 og við það hvarf hún að mestu en var svo endurheimt haustið 1994, af Guðmundi Finnssyni verkstjóra hjá áhaldahúsi Borgarnessbæjar og samstarfsmönnum hans. Þá um haustið slepptu þeir um 4.000 bleikjuseiðum í tjörnina.

Frá því að fólkvangurinn var stofnaður hefur umsjónarnefndin unnið að því að gera svæðið sem aðgengilegast fyrir almenning og útivistarfólk.

Skógrækt
 

Einkunnir voru í landi Hamars þegar Borgarneshreppur kaupir býlið, í ársbyrjun 1943. Átta árum síðar samþykkti hreppsnefndin að girða af reit í kringum Einkunnirnar og helga hann skógrækt. Skógræktarfélagið Ösp var stofnað í þeim tilgangi að hafa umsjón með skógræktinni. Undir merkjum félagsins var stunduð skógrækt í Einkunnum í rúm þrjátíu ár. Lengstum bar Hjörtur Helgason hitann og þungann af starfinu. Hann hafði umsjón með hópum ungmenna sem komu til að planta, bæði úr unglingavinnunni og skólanum í Borgarnesi. Margir Borgnesingar eiga góðar minningar frá þessum tíma, við skógræktarstörf í Einkunnum.

Frá árinu 1954 til ársins 1989 eru skráðar gróðursetningar hjá Skógræktarfélagi Íslands á 125.330 plöntum af 11 tegundum en þeirra helstu eru rauðgreni (36.300), sitkagreni (24.745), skógarfura (21.170) og stafafura (20.650). Líklega voru fleiri plöntur gróðursettar en skráningar ná til.

Annað

 

Hægt er að fræðast frekar um Einkunnir á vefsíðunni: https://folkvangurinneinkunnir.weebly.com/

-Fengið með leyfi frá umsjónarnefnd Einkunna

 

bottom of page