top of page

Furulundurinn

Ábyrgðaraðili: Skógræktin

Fróðleikur


 

Almennt um skóginn

Á Þingvöllum er víðáttumikið birkikjarr en einnig nokkrir gróðursettir skógarlundir.  Frægastur þeirra er Furulundurinn í Almannagjá. Þar var fyrst gróðursett 1899 og er Furulundurinn því einn fyrsti gróðursetti skógurinn á Íslandi. Aðrir lundir á Þingvöllum voru gróðursettir af ýmsum hópum eða tilefnum, t.d. Norðmannareitir og reitir Vestur-Íslendinga sem eru gjafir til íslensku þjóðarinnar. Skógræktin hefur umsjón með skógunum á Þingvöllum.


Staðsetning og aðgengi

Þingvellir eru norðan við Þingvallavatn, á bökkum Öxarár sem rennur eftir völlunum út í Þingvallavatn. Svæðið er vel merkt og aðgengilegt.

 

Saga jarðarinnar

Þingvellir skipa sérstakan sess í hugum Íslendinga, enda áttu þar margir sögulegir atburðir sér stað, t.a.m. var Alþigni stofnað á Þingvöllum árið 930 og Íslendingar lýstu þar yfir sjálfstæði sínu árið 1944. Nú eru Þingvellir friðlýstir og í eigu íslensku þjóðarinnar. Staðurinn er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins og koma þangað hundruðir þúsunda gesta árlega.


Trjárækt í skóginum

Birkiskógur er einkennandi fyrir Þingvallasvæðið en alls hafa verið greindar 172 tegundir háplantna á svæðinu.

Furulundurinn í Almannagjá er fyrsta árangursríka skógræktartilraun á Íslandi (1899). Árið 1999 var haldið upp á 100 ára afmæli Furulundarins og upphaf skipulagðrar skógræktar á Íslandi. Að því tilefni var samþykkt samstarfsyfirlýsing milli Þingvallanefndar og Skógræktar ríkisins um eftirlit og umhirðu skóglendis innan þjóðgarðins. 

Einar Helgason, garðyrkjufræðingur og Christian Flensborg, skógfræðingur hjá jóska Heiðarfélaginu, gróðursettu til lundarins frá 1899-1906, mest kjarrfuru en einnig birki, reynivið, elri, hvitgreni, rauðgreni, skógarfuru, blæösp, lindifuru, síberíuþin, víðitegundir og fleira. Ljóst er að nokkrar uppréttar bergfurur leyndust innan um fjallafururnar, þótt þeirra sé ekki getið í skýrslum. Í skýrslum Islans Skovsag segir Flensborg frá miklum afföllum af plöntunum sem allar komu með skipi frá Danmörku og skýrir af hverju vel yfir 10.000 plöntur voru gróðursettar í þennan 1 ha reit.

Hákon Bjarnason „þykist muna það rétt" að 1917 hafi þarna verið fjallafurubeðja sem náði 10 ára snáða í knéhæð. Upp úr 1930 var fjallafuran komin á aðra mannhæð og farin að leggjast útaf og brotna undan snjó, illfært var um lundinn og hann var ekki til prýði. Var þá grisjað og meirihluti fjallafurunnar fjarlægður. Við það fengu bergfurur, lindifurur, hvítgreni, síberíuþinir og reynitré fyrst að njóta sín en það mynduðust einnig allstórar eyður sem í var gróðursett sitkagreni 1953-1954.

Furulundurinn á Þingvöllum er kenndur við fjallafururnar sem þar voru allsráðandi á fyrri helmingi 20. aldar. Þær upphaflegu eru nú fáar orðnar eftir en hafa sáð til sín og því má finna ungar fjallafurur á víð og dreif um lundinn. Af aldargömlu trjánum er mest af bergfurum en einnig er þar að finna glæsilegar lindifurur og sjaldgæfar tegundir, s.s. síberíuþin, silfurreyni og blæösp. Sitkagreni er þó stærst og stæðilegast þótt það sé helmingi yngra. Furulundurinn er því í raun orðinn mjög fjölbreyttur blandskógur, til marks um að skógur sé síbreytilegt ferli frekar en stöðugur og staðnaður hlutur.

Hákon Bjarnason sagði: „Við skógræktarmenn hljótum að líta þennan lund öðrum augum en flestir aðrir. Hann er lifandi minnismerki þeirra manna sem hófu starf það sem við reynum að rækja af trúmennsku og staðfestu, minnisvarði manna sem vildu gera byggðir landsins blómlegri og byggilegri en þær hafa nokkurn tíma verið, minnismerki manna sem vildu auka og bæta gróður lands vors, hefta eyðingu þess og örtröð, og því hlýtur hann að vera okkur heilagur minnisvarði. Vér þurfum að sjá til þess að hann úrrætist ekki svo að hér megi lengi sjá fyrstu handverk frukvöðla íslenskrar skógræktar."

Annað áhugavert

Fjölda áhugaverðra náttúruminja má sjá á svæðinu. Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna árið 2004. Með samþykktinni eru Þingvellir meðal tæplega 800 menningar- og náttúruminjastaða sem taldir eru hafa einstakt gildi fyrir alla heimsbyggðina. Af þeim nátturuminjum sem eru á svæðinu má nefna flekaskil Atlantshafshryggjarins, gliðnun jarðskorpunnar, fjölbreytt lífríki Þingvallavatns, fugla- og dýralíf.

Fengið frá: www.skogur.is

 

bottom of page