top of page

Guðmundarlundur

Fróðleikur

 

 

Þann 28. nóvember 1997 afhenti Guðmundur Jónsson  og fjölskylda hans Skógræktarfélagi Kópavogs 6,5 hektara landsspildu þar sem Guðmundur og fjölskylda hans höfðu ræktað upp örfoka land. Þá var þar kominn vöxtulegur skógur en eftir var að ganga frá stórri flöt sem enn var í órækt. Svæðið er nefnt Guðmundarlundur eftir gefanda þessarar höfðinglegu gjafar.

 

Frá 1997 hefur félagið staðið fyrir uppbyggingu á svæðinu með samvinnu við og styrk frá ýmsum aðilum og nú er búið að gera það að afar vistlegu útivistarsvæði með góðri leikaðstöðu, gönguleiðum og góðum stígum. Þar er góð grillaðstaða í grillhúsi og minigolfvöllur.

Guðmundarlundur er afar vistlegt útivistarsvæði sem Kópavogsbúar eru óðum að kynnast og njóta og nýtur orðið mikilla vinsælda. Skógræktarfélag Kópavogs á og rekur lundinn.
Guðmundarlundur er öllum opinn. Í honum eru 4 útigrill, þar af 2 í grillhúsi með borðum og bekkjum, eitt grill er við húsið (gamla bústaðinn, farið til vinstri þegar komið er inn fyrir hliðið) og fjórða grillið er á nýrri flöt sem gengið er beint inn á af planinu, vinstra megin við stóru hliðin. Í lundinum er töluvert skógarsvæði með skemmtilegum stígum og lundum. Einnig er stór grasflöt, sem nota má til leikja eða samkomuhalds. 

 

Sumarið 2008 bættist við í Guðmundarlund myndarlegur garður með fjölbreyttum fjölærum garðagróðri úr garði Hermanns heitins Lundholm. Garðurinn ber nafnið Hermannsgarður. Sumarið 2009 voru gerð nokkur beð milli Hermannsgarðs og grillhúss með hátt í hundrað runnaplöntum af um 70 tegundum.

 

Búið er að malbika aðalstíginn um Guðmundarlund og setja lýsingu með honum. Innst í Guðmundarlundi er verið að byggja félags- og þjónustuhús sem jafnframt er fræðslusetur sem verður nýtt fyrir Skógræktarfélagið og grunnskólana og leikskólana í Kópavogi, svo og fyrir gesti Guðmundarlundar.

 

 

 

bottom of page