top of page

Haukadalsskógur

Ábyrgðaraðili: Skógræktin

Fróðleikur

Almennt um skóginn


Haukadalsskógur er einn stærsti þjóðskógur Suðurlands og sá sem mest hefur verið gróðursett í af þjóðskógum Íslands. Fjölmargar tilraunir í skógrækt hafa farið fram á svæðinu og gera enn, sem og skógvistarrannsóknir. Aðstaða til útivistar er góð. Meðal annars er sérhannaður stígur fyrir hjólastóla í skóginum sem unninn hefur verið í góðri samvinnu við Sjálfsbjörgu á Suðurlandi.


Staðsetning og aðgengi


Ekið er upp Biskupstungnabraut að Geysi, fram hjá hótelinu og beygt til vinstri upp með hverasvæðinu að austanverðu. Norður af bílaplani sem þar er liggur malarvegur að Haukadalsskógi og er leiðin inn að kirkju rúmur kílómetri.
Hægt er að keyra um hluta þessa ræktaða skógar sem teygir sig langleiðina upp á Haukadalsheiði, eitthvert víðáttumesta landgræðslusvæði landsins. Frá Haukadal liggur sæmilegur vegur upp á Haukadalsheiði á Hlöðufellsveg F338 (fjallvegur). Þaðan skiptast leiðir, á hægri hönd á Kjalveg en til vinstri á Kaldadalsveg.

Aðstaða og afþreying


Góð aðstaða er til útiveru í fögru og skjólsælu umhverfi. Í Haukadal hafa verið lagðir merktir göngustígar fyrir þá sem hafa áhuga á að kynnast skógi og skógarumhverfi. Við stígana eru fræðsluskilti með upplýsingum um skóga og náttúru í Haukadal. Í skóginum er m.a. sérhannaður stígur fyrir hjólastóla. Auk merktra göngustíga er fjöldi stíga og brauta sem fólki er heimilt að ganga um. Brautirnar eru aðeins ætlaðar dráttarvélum og ekki færar fólksbílum. Því er fólk beðið um að reyna ekki að aka þær.

Aðstaða er til að grilla í stóru grillhúsi, Kristian Kirk húsinu, í jaðri skógarins. Kristian Kirk húsið reisti Einar Óskarsson að frumkvæði Mortens T. Leths og er það eingöngu af viði úr sunnlenskum skógum (sjá myndir af húsinu í myndaalbúmi hér að ofan). Salernisaðstaða er við Kristian Kirk húsið (sjá kort hér að neðan).

 


Saga jarðarinnar


Höfuðbólið Haukadalur er í eigu Skógræktar ríkisins. Danskur maður, áðurnefndur Kristian Kirk, gaf stofnuninni jörðina árið 1940, en hann hafði keypt hana tveimur árum fyrr og hafist handa við að stöðva uppblástur og girða af. Jörðin er 1.600 ha að stærð og með henni fylgdu hlutar eyðibýlanna Bryggju og Tortu.
Á hólnum austan við kirkjuna stóð gamli Haukadalsbærinn. Hann er ekki lengur sjáanlegur en nú stendur flaggstöng á gamla bæjarstæðinu.
Kirkja hefur staðið í Haukadal frá alda öðli. Hún stendur enn á upphaflegum grunni á vesturbakka Beinár. Elstu heimildir um kirkju eru frá árinu 1121. Kirkjan var bændakirkja til 1290 en líklegt er að þá hafi staðurinn verið lagður undir Skálholtsstól. Hélst sú skipan þar til í lok 18. aldar að stólsjarðirnar voru seldar. Haukadalur var seldur á uppboði að Vatnsleysu 1. október 1794. Kirkjan hélst síðan í bændaeign þar til 1940, að Skógrækt ríkisins eignaðist hana ásamt jörðinni. Kirkjan var síðast endurbyggð af Kristian Kirk, eiganda jarðarinnar árið 1938, en að stofni og útliti er hún frá 1842 og því með elstu timburkirkjum á landinu.
Haukadalur er sögufrægur staður. Þar námu land Þorbrandur Þorbjarnarson og Ásbrandur, sonur hans. Hallur Þórarinnson hinn mildi reisti bú í Haukadal árið 1025. Hjá honum ólst upp Ari fróði Þorgilsson og einnig ættfaðir Haukadalsættar, Teitur Ísleifsson. Skóli var í Haukadal á dögum Teits Ísleifssonar, fyrsti prestaskóli á Íslandi. 
Hallur Teitsson varð prestur í Haukadal árið 1110 og tók við búi föður síns. Sonur Halls var Gizur lögsögumaður í Skálholti. Ættin sat Haukadal í 6 ættliði eða 174 ár, síðastur var Ormur Klængsson d.1284.


Trjárækt í skóginum


Í Haukadal hafa verið prófaðar margar trjátegundir og enn fleiri kvæmi (staðbrigði) ýmissa trjátegunda, s.s. sitkagreni, stafafura og ösp frá Alaska, lerki frá Rússlandi, rauðgreni frá Noregi og blágreni úr háfjöllum Bandaríkjanna. Mest hefur verið plantað af þessum tegundum en einnig er í minni mæli notast við fjallaþin frá Bresku-Kólumbíu í Kanada, þöll frá Alaska, lindifuru frá Rússlandi og mýralerki frá Alaska, auk fleiri tegunda.
Í skóginum er afar áhugavert trjásafn sem stofnað var til í minningu Gunnars Freysteinssonar skógfræðings, sem lést í bílslysi 1998. Þar voru gróðursettar trjátegundir frá nokkrum heimsálfum og er svæðinu skipt upp samkvæmt því.
Í Haukadal er sitkagreni sú trjátegund sem sýnt hefur einna bestan vöxt, eða rúma fimm rúmmetra á hektara á ári að meðaltali. Ljóst er að rakur og frjósamur jarðvegur Haukadals er kjörlendi fyrir sitkagreni. Skógurinn er grisjaður og nytjaður í kurl, spæni og til smíða. Gildasti viðurinn sem fellur til við grisjun skóga hefur verið flettur og notaður til að smíða bekki og borð, og í klæðningar.
Ýmsar skógræktartilraunir hafa verið gerðar í Haukadal, svo sem samanburðartilraunir með kvæmi, samanburðartilraunir og ræktun fjallaþins í jólatrjáaframleiðslu, frostlyftingartilraunir nýgróðursettra plantna, prófanir á grisjunarþéttleika skóga, könnun á nagi ranabjallna á rótum plantna, áburðartilraunir á nýgróðursettar plöntur o.fl.

Annað áhugavert í skóginum
Sumarið 2002 hófst gerð skógarstíga fyrir hreyfihamlaða í Haukadalsskógi. Verkefnið er samvinnuverkefni Sjálfsbjargar á Suðurlandi og Skógræktar ríkisins.  Aðalbakhjarl verkefnisins er Pokasjóður verslunarinnar, en auk þess hafa Ferðamálaráð Íslands, Sjálfsbjörg á Suðurlandi, Landgræðslusjóður, Svæðisvinnumiðlun Suðurlands, Bændasamtök Íslands og sumarvinna Landsvirkjunar lagt því lið. Jafnframt unnu nemendur Menntaskólans að Laugarvatni og Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi við stíginn í sjálfboðavinnu

 

Fengið frá: www.skogur.is

 

 

 

 

 

 

bottom of page