top of page

Heiðmörk

Fróðleikur
 

Heiðmörk er stærsta útivistarsvæðið á höfuðborgarsvæðinu og eitt það vinsælasta. Á hverju ári sækir yfir hálf milljón gesta Heiðmörk heim og nýtur þar fjölbreyttrar útivistar og náttúru. Þar finna allir eitthvað við sitt hæfi, hvort sem þeir kjósa að fara um mörkina á hestbaki, reiðhjóli eða tveimur jafnfljótum. Í gegnum tíðina hafa ótal göngu- og reiðstígar verið lagðir um svæðið og glæsileg aðstaða byggð upp fyrir fjölskyldufólk og aðra sem vilja gera sér glaðan dag í skóginum.

 

Heiðmörk er um 3.000 hektarar að stærð, þar af þekur skóglendi tæpan þriðjung en að auki er þar að finna áhugaverðar jarðmyndanir, viðkvæmt votlendi og lyngmóa. Dýralíf er jafnframt afar fjölbreytt á þessum slóðum og gildir þá einu hvort menn hafa áhuga á spendýrum, vatnalífverum eða fuglum himinsins. Áhugamenn um sögu og þjóðhætti þurfa heldur ekki að láta sér leiðast í Heiðmörk enda leynast þar víða mannvistarleifar, allt frá fyrstu tíð Íslandsbyggðar til okkar daga.

 

Sögu Heiðmerkur sem útivistarsvæðis, má rekja aftur til ársins 1947 þegar bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkti að stofna friðland og skemmtigarð fyrir Reykvíkinga í Heiðmörk. Svæðið var vígt árið 1950 og sama ár hóf Skógræktarfélag Reykjavíkur skógrækt þar. Upphaflega var friðlandið stofnað úr landi Elliðavatnsbæjar og úr hluta af landi Hólms og Vatnsenda. Árið 1957 bættist við sá hluti Heiðmerkur sem nú er innan Garðabæjar en tilheyrði þá Vífilsstöðum og afrétti Garðatorfu. Skógræktarfélag Reykjavíkur fer enn með umsjón svæðisins í góðu samstarfi við Reykjavíkurborg, Orkuveitu Reykjavíkur og Garðabæ.

 

Skógæktarfélag Reykjavíkur

Félagið er sjálfstætt starfandi áhugamannafélag um skógrækt í Reykjavík og eitt af tæplega 60 skógræktarfélögum innan vébanda Skógræktarfélags Íslands. Hlutverk félagsins er að vinna að skógrækt, trjárækt og landbótum í Reykjavík og víðar.

Félagar í Skógræktarfélagi Reykjavíkur eru rúmlega 1.000 og fastir starfsmenn þrír en að auki starfar fjöldi fólks tímabundið fyrir félagið

 

HEIDMORK_KORT_VETUR_2018 lítið.jpg

á sumrin og í tengslum við árlegan jólamarkað á Elliðavatni.
Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur um áratuga skeið átt í góðu samstarfi við Reykjavíkurborg um ræktun í borgarlandinu. Einnig hefur félagið lagt ríka áherslu á að virkja einstaklinga, fyrirtæki og félagasamtök til þátttöku í skógrækt og landbótum.

Fræðsla um skóg- og trjárækt og gildi skóga fyrir umhverfi og samfélag er jafnframt mikilvægur þáttur í starfi félagsins. Þeim þætti sinnir félagið meðal annars með námskeiðahaldi, útgáfu og móttöku hópa fólks úr ýmsum áttum, allt frá leikskólabörnum til ellilífeyrisþega.

Aðalverkefni Skógræktarfélags Reykjavíkur er umsjón Heiðmerkur, eins stærsta og vinsælasta útivistarsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Í mörg horn er að líta í Heiðmörk en auk hefðbundinna skógræktarstarfa sinnir félagið þar uppbyggingu og viðhaldi á aðstöðu til dæmis með gerð stíga og opinna svæða til leikja og skemmtunar.

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur einnig umsjón með Esjuhlíðum, öðru vinsælu útivistarsvæði borgarbúa. Þá sinnir félagið skógrækt á Reynivöllum í Kjós, á Múlastöðum í Flókadal í Borgarbyggð og í Fellsmörk í Mýrdal.



Fengið frá: www.heidmork.is

 

bottom of page