top of page

Helliskógur

Ábyrgðaraðili: Skógræktarfélag Selfoss

Fróðleikur
 

Frá árinu 1986 hefur Hellisskógur við Selfoss verið aðal vinnusvæði skógræktarfélags Selfoss. Svæðið afmarkast af Hellisgili að austanverðu og liggur þar að landamörkum Selfoss og Laugarbakka. Að ofanverðu fylgja mörkin Biskupstungnabraut til móts við gámasvæði bæjarins og að neðanverðu afmarkast svæðið af Ölfusá, að efstu húsum í hverfinu utan ár.

 

Svæðið var afhent skógræktarfélagi Selfoss með samningi við skógræktarfélagsins og Selfossbæjar 1. október 1985. Svæðið var strax nefnt Hellisskógur þó ekki væri neinn skógurinn.

Landið var þá mjög illa farið eftir langvarandi ofbeit hrossa og sauðfjár. Mýrlendið var víða gróðurlítið, útsparkað drullusvað og í holtunum voru stór rofaborð.

 

Haustið 1986 var fyrsti hluti svæðisins girtur af og var þá 53,8 ha að stærð. Plöntun hófst vorið 1986, en þá var plantað 2000 víðiplöntum í skjólbelti rétt innan við aðalinnganginn neðst á svæðinu. Um haustið voru 16 ha af mýrlendinu við Grímskletta plægðir og undirbúnir undir plöntun. Næstu ár á eftir unnu sjálfboðaliðar á vegum skógrætarfélagsins, vinnuhópar úr unglingavinnu, grunnskólanemendur og hópar kostaðir af atvinnuleysissjóði hörðum höndum við plöntun og umhirðu plantna og lagningu göngustíga. Einnig voru lagðir vegir um svæðið.

Þessi fyrsti hluti Hellisskógar var fullplantaður árið 1994. Þá var gerður nýr samningur og svæðið stækkað um 72.2 ha. Heildarstærðin var eftir stækkun um 126 ha.

 

Haustið var hluti mýrlendis á nýja svæðinu kílræstur (50 km af kílræsum) og sumarið 1995 var svæðið girt og sameinað eldri hlutanum. Einnig var plantað 20.000 plöntum af birki og víði efst á svæðið meðfram Biskupstungnabraut.

Frá árinu 1986 hefur nú verið plantað um 220.000 plöntum af 51 tegund. Allar þessar tegundir er að finna í trjásafni sem komið var upp í Hellisskógi á árunum 1991-1997 sem einn af velgjörðarmönnum félagssins, Júlíus Steingrímsson greiddi allan kostnað við. Frá upphafi framkvæmda í Hellisskógi hafa sjálfboðaliðar á vegum skógræktarfélagsins árlega unnið 2-8 kvöld við plöntun og önnur störf. Nokkur félagasamtök og klúbbar hafa ennig komið og plantað. Hópar frá grunnskólum og unglingavinnu á Selfossi hafa plantað í Hellisskóg flest ár.

Auk þess að planta hafa verið lagðir akvegir og göngustígar um svæðið, settir bekkir og borð og Hellirinn grafinn út og útbúinn sem áningarstaður þar sem fólk getur sest niður og fundið sér skjól fyrir veðri og vindum. Hellisskógur hefur smám saman orðið eitt helsta útivistarsvæði Selfyssinga rétt eins og stefnt var að í upphafi.

Framkvæmdir í Hellisskógi hafa verið fjármagnaðar með félagsgjöldum, gjafafé frá einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum auk árlegra styrkveitinga frá Sveitarfélaginu Árborg.

Árið 2003 var unnið deiliskipulag að svæðinu og í tengslum við það fór fram viðamikil skráning á fornminjum og minjastöðum í Hellisskógi. Á komandi árum er stefnt að áframhaldandi plöntun samkvæmt gildandi deiliskipulagi og markvissri aukningu í stígagerð um svæðið, bæði til að auðvelda gróðursetningu og viðhald svæðisins en einnig til að auka útivistarmöguleika svæðisins.

 

Vöxtur og viðgangur trjágróðurs í Hellisskógi hefur verið framar vonum og á stóru svæði er nú að vaxa upp skógur sem er farinn að standa undir nafni.

 

bottom of page