top of page

Leyningshólar

-Upplýsingar

Ábyrgðaraðili: Skógræktarfélag Eyfirðinga

 

 


 

 

 

Leyningshólar, við mynni Villingadals innarlega í Eyjafirði, eru náttúruperla sem er einstök í sinni röð í Eyjafirði. Þar eru einu leifar náttúrulegs birkiskógar sem eftir eru í héraðinu og ná að mynda samfelldan skóg. Hann er í heillandi landslagi hóla og lauta sem myndast hafa við framhrun úr fjallinu fyrir ofan við lok síðustu ísaldar.

 

Eitt af fyrstu verkum Skógræktarfélags Eyfirðinga var að friða Leyningshóla og má telja líklegt að með því hafi skóginum verið bjargað frá eyðingu. Eftir friðunina hefur skógurinn vaxið og dafnað.

Birkiskógurinn í Leyningshólum er fallegur og birkið óvenju fjölbreytt hvað varðar vaxtarlag og lit. Allmikið er um snjóbrot í skóginum.

 

Á 6. og 7. áratug 20. aldar var nokkuð gróðursett af innfluttum trjátegundum í hólunum með fremur lélegum árangri, enda landið þurrt og jarðvegur víða rýr. Undantekningin er lerkiteigur með þremur kvæmum, gróðursettum á árunum 1956 - 1961, sem þrifist hefur fádæma vel, einkum er kvæmið frá Raivola glæsilegt. Við grisjun árið 1990 féll til mikið magn timburs úr þessum lerkiteigi sem nýtt var af landeigendum og Skógræktarfélaginu, m.a. um 900 girðingastaurar.

 

Skógræktarfélagið hefur nú ákveðið að viðhalda birkiskóginum í Leyningshólum sem náttúruminjum og þar eru ekki lengur gróðursettar innfluttar trjátegundir.

 

Lengi hafa Leyningshólar þjónað Eyfirðingum sem útivistarsvæði og áratugum saman hafa Eyfirðingar komið þar saman á Leyningshóladaginn. Merktar gönguleiðir liggja um skóginn.

Á síðustu árum hafa verið grisjaðar gönguleiðir um skóginn og unnið er að merkingum á svæðinu.

 

 

 

 

 

bottom of page