top of page

Öskjuhlíð

Ábyrgðaraðili: Reykjavíkurborg

Fróðleikur
 

 

Öskjuhlíðin er einstök og sennilega það opna svæði í Reykjavík sem er mest áberandi og flestir þekkja. Hún er 61 metra há, stórgrýtt hæð sem skagar yfir sitt nánasta umhverfi þ.m.t. miðbæ Reykjavíkur. Efst á hæðinni sitja sex hitaveitugeymar sem flestir sinna enn mikilvægu hlutverki við að geyma hitaveituvatn fyrir Reykvíkinga. Ofan og milli tankanna er Perlan. Þar er að finna safn, kaffihús og veitingastað á efstu hæðinni sem snýst löturhægt. Vinsælastir eru þó útsýnispallarnir en fáir staðir í borginni bjóða upp á betra útsýni yfir borgarlandið, sundin og fjöllin. Öskjuhlíðin sjálf er áhugavert útivistarsvæði með fjölbreytilegu náttúrufari, merkilegum jarðminjum, einni þéttustu skógrækt í Reykjavík og einstökum mannvistarminjum frá stríðsárunum. Öskjuhlíðin er afar vinsælt útivistarsvæði sökum nálægðar sinnar við miðbæ Reykjavíkur, háskólasvæðin í Vatnsmýrinni, útivistarsvæðin í Nauthólsvík og Fossvogi og fjölmenn hverfi eins og Bústaðahverfið og Hlíðar.

 

 

Jarðfræði


Öskjuhlíð er nokkuð brött, stórgrýtt hæð. Berggrunnur Öskjuhlíðar er Reykjavíkurgrágrýtið sem rann úr eldstöðvum á Mosfellsheiði á síðari hluta ísaldar. Jöklar mótuðu grágrýtið á síðasta jökulskeiði (fyrir 70-12 þúsund árum) og má sjá menjar um jökulrof á grágrýtisklöppum neðst í Öskjuhlíð nálægt Nauthólsvík. Þar er m.a. stórt hvalbak með áberandi jökulrákum.


Fyrir 10 þúsund árum var sjávarstaða mun hærri og þá var Öskjuhlíð eyja. Ummerki um hærri sjávarhæð má sjá á sjóbörðu grjóti sem liggur umhverfis hlíðina í um 43 m hæð.

Gróður og dýralíf
 

Gróðurlendi í Öskjuhlíð eru margbreytileg. Við landnám var hlíðin án efa gróin birkikjarri sem ábúendur í Reykjavík og nálægum býlum nýttu sem eldivið. Á fyrri hluta 20. aldar einkenndist gróðurfar Öskjuhlíðar af lítt grónum holtum og mólendi en eystri hluti hlíðarinnar af votlendi og ræktuðum túnum. Mólendið er vaxið

bláberja-, beiti- og krækilyngi en túnin skarta fjölbreyttum grastegundum auk fallegra breiða af brennisóley, túnfífli, hvítsmára og vallhumal. Um miðja 20. öld hófst skógrækt í vestur- og suðurhlíðum Öskjuhlíðar og er þar nú nær samfelldur skógur þar sem birki, bergfura, sitkagreni og alaskaösp eru algengustu trjátegundir. Hæstu barrtrén eru yfir 15 metrar. Nokkuð er um sjálfsánar reyniviðarplöntur auk fleiri trjátegunda. Töluverður undirgróður er í skóginum nema þar sem barrtrén eru þéttust. Algengar háplöntur í skóglendinu eru maríustakkur, hrútaberjalyng, krossmaðra, snarrótarpuntur og vallelfting. Töluvert vex af lúpínu í skógarjaðrinum.
Fuglalíf er auðugt í Öskjuhlíð og hafa yfir tíu tegundir verpt þar. Spörfuglar eru mest áberandi í skóg- og kjarrlendinu, einkum skógarþröstur og auðnutittlingur en einnig stari og svartþröstur. Þá hafa nýlegir landnemar, svo sem glókollur og krossnefur, sést í Öskjuhlíð. Ýmsir vaðfuglar hafa verpt í Öskjuhlíð m.a. tjaldur, sandlóa, heiðlóa, hrossagaukur og stelkur. Margir aðrir fuglar eru tíðir gestir á svæðinu svo sem hrafn, maríuerla, þúfutittlingur, ýmsar máfategundir, grágæs og aðrir andfuglar. Æðarfuglar eru áberandi í Fossvoginum neðan við hlíðina. Kanínur eru áberandi í Öskjuhlíð. Um er að ræða villtar og hálfvilltar kanínur sem eru afkomendur gæludýra sem hefur verið sleppt lausum en slíkt hefur verið stundað um árabil. Um 30-40 kanínur halda sig í Öskjuhlíð að staðaldri.

 

Saga


Í Öskjuhlíð má finna minjar selja sem tilheyrðu býlinu Reykjavík sem nýtt voru við skóganytjar og sem var fyrir búfénað. Minnst er á Víkursel í heimildum frá 14. öld. Rústir í suðvesturbrekku Öskjuhlíðar eru taldar geta verið leifar Víkursels. Leifar um fjárbyrgi og hlaðna stekki er einnig að finna í nágrenni rústarinnar.


Beneventum er samansafn klettastalla í vestanverðri brekkunni sem var notað sem samkomustaður skólapilta Lærða skólans á 19. öld.
Grjótnám hófst í Öskjuhlíð 1913 en grjótið var einkum nýtt í hafnargerð. Grjótið var sprengt úr grágrýtisklettum í norðvesturhlíðinni og flutt með járnbrautarlest niður að Reykjavíkurhöfn. Í dag er Keiluhöllin staðsett að mestu inni í einni grjótnámunni. Mikið er um stríðsminjar frá síðari heimsstyrjöldinni í Öskjuhlíð en breskir og bandarískir hermenn byggðu margvísleg mannvirki í vesturhluta Öskjuhlíðar og Vatnsmýri, flest í tengslum við byggingu þeirra á Reykjavíkurflugvelli. Meðal mannvirkja sem byggð voru má nefna steypt skotbyrgi, víggrafir, loftvarnabyrgi, geymslur, fjölda gólfa og grunna undan bröggum, vegi og háa grjótveggi. Allstór braggabyggð var í vestur- og suðurhluta Öskjuhlíðar á stríðsárunum. Einnig var byggð bryggja út í Nauthólsvík.


Hitaveitugeymarnir voru reistir um miðja 20. öldina á tímabilinu 1940-1966. Þeir voru þó allir rifnir og endurbyggðir seint á níunda áratugnum. Veitinga- og útsýnishúsið Perlan var byggð á milli og ofan á geymana og var vígð árið 1991.


Fengið með leyfi frá www.reykjavik.is

 

bottom of page