top of page

Selskógur

-Upplýsingar

Ábyrgðaraðili: Fljótsdalshérað

 

 


 

 

 

 

Selskógur nefnist ysti hluti Egilsstaðaskógar sem er víðlendasti skógur á Austurlandi á eftir Hallormsstaðaskógi. Selskógur er um 80 hektarar að stærð.

Náttúrufar


Á svæðinu eru 4-5 megingerðir gróðurs þ.e birkiskógur, mýrar, eyrar, gömul tún, kletta- og giljagróður. Skógurinn er náttúrulegur birkiskógur sem að hluta til hefur verið grisjaður. Aðal skrautfjöður þessa fallega og fjölbreytta svæðis er Eyvindará sem fellur í mikilfenglegu gljúfri og afmarkar skóginn að hluta. Gróðurinn teygir sig niður í gilið og á nokkrum stöðum vaxa birkihríslur, reynitré og hið sígræna einistóð í klettaglufum.

 

Á sumrin skarta eyrarrós og gullsteinbrjótur sínu fegursta niður á áreyrunum. Um 160 háplöntur finnast í Selskógi og er skógarbotninn ýmist vaxinn lyngi eða gras- og blómgróðri, einna athyglisverðastar eru Austurlandsplönturnar svonefndu, en af þeim vaxa bláklukka, gullsteinbrjótur, maríuvöttur og sjöstjarna á svæðinu allar í töluverðu magni. Einnig má nefna birkifjólu sem aðeins hefur útbreiðslu frá Skagafirði til Fljótsdalshéraðs. Í skóginum er einnig gott berjaland, en þar vaxa krækiber, bláber, aðalbláber og hrútaber og á sólríkum stöðum má finna jarðarber. Enn eru þar á milli 50 og 60 sveppategundir, og á meðal matsveppa má nefna kóngssvepp og kúalubba sem fylgir birkinu eftir. 

Stígar

 

Í Selskógi er mikið um stíga, misgreiða og í ýmsu ástandi. Mest ber á þeim sem nefndur er aðalstígur, en hann hefur verið byggður upp í áföngum á síðustu árum og er þokkalega greiðfær. Aðalstígurinn er orðinn til í núverandi mynd eftir að landið komst í eigu sveitarfélagsins, en upp úr því var ráðist í að gera hann, ásamt því að svæðið var kortlagt.


Aðrir stígar eiga sér sumir lengri sögu, vegna fyrri nýtingar svæðisins, en Selskógur er gamall samkomustaður og síðar beitiland fyrir nautpening. Þeir eru mis greiðfærir og mis greinilegir, allt frá því að vera þokkalega færir gangandi fólki yfir í að vera óljósar slóðir eða búfjárgötur.

 

 

 

 

 

 

Stígakort af Selskógi
bottom of page