Skógargáttin leggur úr höfn - styrkur úr Lýðheilsusjóði
Lengi hefur blundað sá draumur hjá unnendum skóga landsins að hægt sé að nálgast upplýsingar um sem flesta þeirra á einum og sama staðnum. Þar ætti að vera hægt að finna upplýsingar um staðsetningu, göngustígakort, áhugaverðan texta um skóginn og svæðið, fallegar ljósmyndir og fróðleik um hin mörgu viðfangsefni skóga og útivistar. Skógræktarfélag Íslands vonar að vefsíðan „Skógargáttin“ geti sinnt því starfi, öllum almenningi til góða. Vinna við vefsíðuna hófst með nýju ári og fékk verkefnið nú nýlega styrk úr Lýðheilsusjóði til þess að halda áfram gerð síðunnar og á sjóðurinn miklar þakkir skyldar fyrir. Vinna við vefsíðuna er framkvæmd smá saman og hún betrumbætt í sífellu.
Vonandi nýtist vefsíðan þér, kæri lesandi, við að finna áhugaverða útivistarmöguleika og fræðast frekar um skóga landsins, Skógræktarfélag Íslands Allar uppástungur og ábendingar eru vel þegnar (skog@skog.is).