Útivist á veturna
Hjá mörgum dregst saman útiveran á veturna, enda styttist dagurinn og ekki alltaf blíðviðri á okkar annars fallega landi. Það er þó engin ástæða til þess að láta veðrið stjórna sér um of því örlítill undirbúningur, heppileg leið og góður klæðnaður er allt sem þarf. Undirbúningur Gott er að kynna sér hvert þjónustustigið er á nálægum útivistarsvæðum. Á sumum þeirra getur verið erfitt að komast um á snjóþungum dögum á meðan annars staðar eru vegir ávallt ruddir. Einnig getur verið misgott að fara um stíga eftir því hvernig snjóalög liggja á svæðinu. Ef fara skal í langa ferð eða á fjalllendi er gott að láta einhvern nákominn vita af áformunum. Klæðnaður Að klæða sig rétt er grundvallaratriði. Forðast skal fyrst og fremst bómullarfatnað. Bómull missir einangrunareiginleika sína fljótt við raka og líkaminn eyðir orku við að reyna hita flíkina. Ull og ullarblöndur eru langbestu efnin þegar kemur að vali á innsta lagi (bolur, föðurland). Ytri lög (jakkar, úlpur) skulu vera úr vindheldum efnum. Huga skal sérstaklega að sýnileika okkar á veturna. Góð ráð eru að bera ávallt á sér endurskinsmerki og nota a.m.k. eina skærlitaða flík, líkt og húfu.
Upphitun Ef stunda á hlaup, hjólreiðar eða aðrar hraða hreyfingu er mikilvægt að hita vel upp áður en lagt er af stað. Vöðvar og liðamót eru ekki eins sveigjanleg í kulda og þá er frekari hætta á meiðslum. Skógurinn Í skógarumhverfi er að finna skjól, hlý form og liti sem lífga upp á skammdegið og gefa kost á að stunda útivist á fleiri dögum þegar vindar blása. Fátt er svo fallegra en snæviþakin tré. Vetraríþróttir Þá er um að gera nýta sér árstíðina til fullnustu. Skíðasvæðin opna um allt land og gönguskíðabrautir eru ruddar reglulega í Kjarnaskógi og Heiðmörk. Færa má rök fyrir því að útivera á vetri sé enn þá mikilvægari á norðlægum slóðum en á sumrin. Við það að fara út nýtur maður þeirrar takmörkuðu dagsbirtu sem dagarnir bjóða upp á og dagurinn virðist lengri. Allir út að leika, gleðilegan vetur!
Brynjudalur. Ljósmynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir