top of page

Líf í lundi 2018

Fjölmenni sótti skógardaginn sem haldinn var í skógum vítt og breitt um landið 23. júní undir yfirskriftinni Líf í lundi, en þetta var í fyrsta sinn sem blásið var til útivistar- og fjölskyldudags undir þessari yfirskrift.

Af hugsjón og elju hefur ræktun myndarlegra útivistarskóga þróast mjög undanfarin ár og mikil aðstaða verið byggð upp í skógum víða. Nú er svo komið að í flestum byggðarlögum er stutt að fara í útivistarskóg. Þessir skógar eru af öllum stærðum og gerðum en þróast stöðugt og dafna. Samhliða þessari þróun hefur orðið til skógarmenning í landinu og almenningur nýtir sér skógana til útivistar í æ ríkari mæli. Með samstilltu átaki var Lífi í lundi ætlað ná eyrum og augum enn fleiri landsmanna, kynna betur þá útivistarmöguleika sem skógarnir bjóða upp á og vekja athygli á mikilvægi skógræktar fyrir land og þjóð.

Að verkefninu standa Skógræktarfélag Íslands og aðildarfélög þess ásamt Skógræktinni og Landssamtökum skógareigenda. Ýmiss önnur félög, fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar tóku þátt í að halda viðburðina á hverjum stað svo sem Garðyrkjufélag Íslands, Grasagarður Reykjavíkur, Ferðafélag Íslands, Ásatrúarfélagið og mörg fleiri. Arion banki studdi kynningu viðburðanna með myndarlegum hætti. Markmiðið er að laugardagur um Jónsmessuleytið verði einn allsherjar skógardagur ár hvert og viðburðir verði haldnir sem víðast í skógum þennan dag.

Líf í lundi - Takk fyrir komuna!

Alls voru haldnir nítján viðburðir um land allt sem heppnuðust vel og voru almennt vel sóttir. Skógardagurinn mikli hefur verið haldinn um þetta leyti frá því laust eftir síðustu aldamót og sömuleiðis hefur Skógardagur Norðurlands verið um þetta leyti í nokkur ár. Báðir þessir rótgrónu viðburðir voru hluti af dagskrá Lífs í lundi auk hinna fjölmörgu nýju viðburða sem skipulagðir voru. Markmiðið er að fjölga viðburðum í skógum landsins og fá almenning til að heimsækja skógana, hreyfa sig þar, njóta þess að vera saman, fræðast um og upplifa skóga og náttúru landsins.

Fjölbreytni einkenndi dagskrá viðburðanna og margt var í boði. Má þar nefna a

xarkast, kennslu í tálgun og fleiri viðarnytjum, bogfimi, eldamennsku, fræðslu, skógarhöggskeppni, flamengótónlist, heiðið blót, ratleiki, fuglamerkingar, skógargöngur og hlaup! En fyrst og fremst var það samveran og dvölin í skóginum sem stóð upp úr.

Veður var með ýmsu móti á landinu þennan dag og víða rigndi eitthvað á skógargesti. Fólk lét veðrið þó ekki aftra sér og klæddi sig eftir veðri eins og vera ber. Skógarmenning vex í lundi nýrra skóga og vonandi verður Líf í lundi árlegur viðburður í skógum landsins um ókomin ár.


Mest lesið
Nýlegar fréttir
Fréttasafn
Leitarorð
No tags yet.
Fylgstu með
  • Facebook Basic Square
bottom of page