top of page

Vaglaskógur

Ábyrgðaraðili: Skógræktin

Fróðleikur

 

Almennt um skóginn


Annar stærsti skógur landsins og einn sá fegursti. Vinsæll til útivistar, með merktar gönguleiðir. Á Vöglum er starfstöð Skógræktarinnar og aðsetur skógarvarðarins á Norðurlandi. Starfsemin felst í umhirðu skóglenda Skógræktarinnar á Norðurlandi, grisjun, úrvinnslu og sölu afurða.

 

Staðsetning og aðgengi


Um miðbik Fnjóskadals, austan Fnjóskár er Vaglaskógur. Stutt er til Akureyrar frá Vöglum, eða um 34 km, en verður um 16 km þegar Vaðlaheiðargöng verða opnuð.


Aðstaða og afþreying


Vaglaskógur er meðal fjölsóttustu skóga á Íslandi. Skógurinn er skipulagður til útivistar með merktum göngustígum, vinsæl tjaldsvæði eru í skóginum og fjöldi sumarhúsa í nágrenninu.

Í skóginum er skemmtilegt trjásafn með fjölda tegunda.

Margir leggja leið sína í Vaglaskóg til sveppa- eða berjatínslu og jurtaskoðunar. Sveppir gegna veigamiklu hlutverki við ræktun skóga. Kúalubbi myndar svepprót með birki og fjalldrapa, hjálpar plöntunum að afla sér vatns og steinefna og þiggur í staðinn næringu frá trjánum. Í Vaglaskógi er að finna ýmsa bragðgóða matsveppi, svo sem áðurnefndan kúalubba, kóngsvepp, lerkisvepp, furusvepp og fleiri tegundir. Hrútaber dafna vel á sólríkum og skjólgóðum stöðum eins og í gras- og blómabrekkum, í gisnu kjarri eða birkiskógi. Hrútaber er því víða að finna í Vaglaskógi þegar líður á sumarið og sækjast margir gestir skógarins eftir þeim. Úr hrútaberjum má gera saft og sultur.

Saga jarðarinnar


Þegar Skógrækt ríkisins tók formlega til starfa 1. janúar 1908 fékk hún í vöggugjöf Hallormsstaðaskóg, Vaglaskóg og umsjón með smáreitunum á Þingvöllum og að Grund í Eyjafirði. Vaglaskógur

hafði náð athygli Dananna og var þegar búið að reisa litlar girðingar til undirbúnings gróðrarstöðvar svipað og gert var í Mörkinni á Hallormsstað. Strax var hafist handa við að friða skóginn í heild.

 

Trjárækt í skóginum


Vaglaskógur er að jafnaði beinvaxnari og hávaxnari en aðrir íslenskir birkiskógar. Allt frá því Skógrækt ríkisins tók við skóginum hafa miklar nytjar verið hafðar af honum, einkum til eldiviðar og kolagerðar. Meðferðin á skóginum miðast við að viðhalda honum, sérstaklega með stakfellingu. Þá eru stök tré, yfirleitt þau elstu hverju sinni á hverju svæði, felld án þess að í skóginum myndist veruleg rjóður. Trén endurnýja sig síðan með teinungi upp af stúfnum. Við þessa meðferð myndast misaldra skógur með 2-4 aldursflokkum trjáa eftir því hversu oft hafa verið felld tré á hverju svæði. Þessari aðferð hefur nú verið beitt í Vaglaskógi i hartnær 100 ár, sem er lengur en flest birkitré lifa. Gömlu trén, sem verið er að fella nú og breyta í arinvið til að hita pitsuofna og sumarbústaði landsmanna, hófu að vaxa eftir svipaða fellingu snemma á 20. öld. Allan þann tíma hefur skógurinn vaxið og dafnað án þess að gestir hafi tekið mikið eftir því að kynslóðaskipti yrðu hjá trjánum. 

Vaglaskógargirðingin hefur verið færð til norðurs út á Hálsmela í tveimur áföngum. Er eldra svæðið óðum að vaxa upp með sjálfsánu birki ásamt gróðursettum lerki- og furureitum en yngra svæðið er Landgræðsluskógasvæði, mest gróðursett með lerki síðan 1990. Með því hefur Vaglaskógur tvöfaldast að flatarmáli og nær nú að þjóðvegi 1 austan Fnjóskár.

 

Annað áhugavert í skóginum


Bogabrúin yfir Fnjóská er fyrsta steinbrú sinnar tegundar hér á landi. Brúin var hönnuð og byggð árið 1908 af danska fyrirtækinu Christiani & Nielsen og var þá lengsti steinbogi á Norðurlöndum, 54,8 metrar. Hún var upphaflega aðeins ætluð fyrir ríðandi menn og hestvagna en var notuð fyrir almenna umferð til ársins 1968. Eftir það var hún aðeins ætluð léttri umferð en síðan lokað fyrir bílaumferð árið 1993 þegar hún var færð í sitt upprunalega horf. Það gerði Vegagerðin vegna sérstöðu mannvirkisins svo það gæti staðið sem minnisvarði gamallar verkmenningar og samgöngusögu.

 

Fengið með leyfi frá: www.skogur.is

 

 

 

 

 

bottom of page