top of page

Alaskaösp

Alaskaösp (Populus balsamifera ssp. trichocarpa) er uppruninn af vesturströnd Norður-Ameríku sunnan frá Kaliforníu norður til Kenaiskaga og Kodiak eyju í Alaska. Alaskaöspin er með stórvöxnustu aspartegundum og nær vanalega um og yfir 30 m hæð. Alaskaöspin er skammlíf trjátegund og verður sjaldan yfir 100 ára, en elstu alaskaaspir sem vitað er um að hafa náð 200 ára aldri. Tegundin kýs sér helst frjóan jarðveg með ferskan jarðraka, en getur vaxið við kröpp kjör á berangri.

 

 

 

 

Notkun

Alaskaösp er hraðvaxnasta trjátegundin hér á landi og mikil fjölbreytni í því erfðaefni sem völ er á. Þetta gefur tækifæri til þess að velja ólíka klóna eftir tilgangi gróðursetningarinnar. Töluverður munur er á vaxtarlagi klóna, s.s greinasetningu, vaxtarhraða, útliti blaða, vindþoli, þoli gegn vor- og haustkali, o.s.frv. Vegna vaxtarhraðans eru bundnar vonir við alaskaöspina til timburframleiðslu hérlendis. 

 

Alaskaösp getur einnig verið fallegt og tignarlegt garðtré þar sem hún fær nægt svigrúm en að sama skapi hentar hún síður í minni garða. Tegundin hefur notið vinsælda og verið mikið notuð í flestum bæjarfélögum og á stóran þátt í þeirri skjólmyndun sem þar hefur átt sér stað.
Sagt er að rótarkerfi alaskaaspar geti skemmt holræsi. Slíkt er frekar mælikvarði á gamlar og ónýtar lagnir en nokkuð annað. Plastefnin hafa á seinni tímum rutt sér til rúms svo möguleg hætta er fyrst og fremst þar sem notuð eru steinsteypt rör er farin eru að leka.


Ræktun

Ræktun alaskaaspar hófst hér á landi árið 1944 þegar fyrstu græðlingar frá Alaska voru sendir til landsins. Ræktun þeirra gafst vel frá upphafi en síðan hefur mikið af efnivið borist til landsins.

Alaskaösp vex ágætlega víðast hvar um land. Hún er nokkuð vindþolin en á sumrin þegar hún er í fullu laufskrúði er algengt að toppar brotni og stór laufblöð tætist af trjám ef vindhraði er mikill. Saltveður þolir hún þokkalega og þrífst ágætlega þrátt fyrir mengun frá umferð. Alaskaöspin vex best í frjósömum jarðvegi og sérstaklega þar sem hún nær í vatn á hreyfingu við ár og lækjarfarvegi eða í brekkurótum.
 

Meindýr og sjúkdómar

Alaskaösp hefur hingað til verið að mestu laus við óværu hérlendis en tveir nýlegir vágestir herja þó á öspina.  Asparryðsveppurinn (Melampsora larici-populina) og asparglyttan (Phratora vitellinae) geta hægt á vexti trjáa en afar sjaldgæft er að skemmdirnar dragi þau til dauða.

Asparryðsveppurinn myndar gula eða rauðgula ryðbletti neðan á blöðum alaskaaspar. Þar myndast ryðgró sem dreifa sjúkdómnum enn frekar. Á veturna lifir sveppurinn í föllnum asparlaufum. Frá þeim berst smitið yfir á lerkinálar þegar það laufgast og svo aftur yfir á öspina. Hingað til hefur asparryð valdið mestum skaða á Suðurlandi, enda er þar úrkomusamt og hlýtt, en þær aðstæður henta ryðsveppum vel.

 

Asparglyttan liggur í dvala yfir veturinn sem fullorðið dýr og vaknar á vorin og leggst þá einkum á brum asparinnar og ný laufblöð sem eru við það springa út. Kvendýrin verpa svo eggjum sínum á þroskuð laufblöð. Um mitt sumar fara lirfurnar á stjá og raða sér oft saman hlið við hlið og hefja kappátið. Síðsumars hafa lirfurnar myndbreyst og og ný kynslóð af fullorðnum bjöllum fara á flakk og taka til við að naga laufblöð og börk yngsta hluta trjásprotanna fram í október en þá leggst bjallan í dvala.

 

Asparglyttan ver sig gegn afráni með því að umbreyta sykrum (einkum salicin og salicortin) sem þær innbyrgða yfir í salicylaldehýð sem er eitrað. 

Greining

Egglaga laufblöð, 4 -12 cm löng. Árssprotar ólífugrænir til rauðbrúnir. Börkur er ljósgrár eða gulgrár á ungum trjám en dökkgrár á eldri trjám. Haustlitir alaskaaspar eru gulir. Öspin er fjölbreytileg að útliti og vaxtarlagi eftir kvæmum og klónum.

Annað áhugavert

Alaskaöspin er gædd þeirri náttúru að á vorin leggur sterkan balsamilm frá trjákvoðu á brumum hennar. Vegna vinsælda alaskaasparinnar finnur maður nú víða þennan einkennandi ilm þegar öspin vaknar af vetrardvala og er þar með orðið eitt af táknum vorsins í hugum margra.

Stæðileg alaskaösp í garði, Akureyri

Stæðileg alaskaösp í garði, Akureyri

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

Alaskaösp á Fáskrúðfirði

Alaskaösp á Fáskrúðfirði

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Laufblað alaskaaspar

Laufblað alaskaaspar

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Ung alaskaösp

Ung alaskaösp

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Laufblað alaskaaspar

Laufblað alaskaaspar

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Lauf eru breytileg milli kvæma

Lauf eru breytileg milli kvæma

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Alaskaösp í Laugardalnum

Alaskaösp í Laugardalnum

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

Stofnskot

Stofnskot

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

Alaskaösp í haustlitum

Alaskaösp í haustlitum

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

Ung alaskaösp

Ung alaskaösp

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

Alaskaösp á Eskifirði

Alaskaösp á Eskifirði

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

bottom of page