top of page

Álfholtsskógur

Fróðleikur

 

 

Álfholtsskógur lúrir norðaustan við Akrafjall í Hvalfjarðarsveit. Skógurinn er orðinn aldraður að hluta en byrjað var að gróðursetja í svæðið 1940. Skógurinn er á 75 ha svæði í landi Stóru-Fellsaxlar sem er í eigu Hvalfjarðarsveitar. Gamli Akrafjallsvegurinn (Fellsaxlarvegur) gengur í gegnum landið frá norðri til suðurs. Heilmikið stígakerfi liggur vítt og breitt um skóginn, alls 7-8 km langt. Best er að koma að skóginum frá Akrafjallsvegi (nr.51), sem liggur frá Vesturlandsvegi (þjv. nr.1) niður á Akranes. Allir eru velkomnir í skóginn til að njóta, en lausaganga hunda er ekki vel séð. Ráðgert er að gera skóginn að  „Opnum skógi“ á 80 ára afmælisárinu 2019 í samvinnu við Skógræktarfélag Íslands.

 

Skógrækt

Upphafið var að ungt fólk í sveitinni stofnaði félagsskap 1939 til að sinna menningarmálum þar þá meðal skemmtanahaldi og skógrækt. Landskiki ½ hektari fékkst árið eftir úr landi Stóru-Fellsaxlar og var sáð í hann birkifræi. Stækkun svæðisins varð síðan í nokkrum áföngum í samvinnu við sveitarfélagið Skilmannahrepp, sú síðasta árið 2003 og var þá orðið 75 ha.

Kraftur í gróðursetningum var var frekar lítill fyrstu árin. Frá árinu 1978 hefur gróðursetning og skipulag verið markvisst og reglubundið og skráningu haldið til haga.

Ætla má að yfir 200.000 plöntur hafi verið gróðursettar frá upphafi vega.

Stöðugt er verið að bæta ásýnd skógarins með því að grisja og auka
fjölbreyttni í gróðri. Mest hefur verið sett niður af birki, greni, furu og ösp
en einnig nokkuð af reyni og lerki. Einnig er í skóginum talsvert af víði-
tegundum sem voru settar niður fyrir mörgum áratugum, sem skjólplöntur
en þjóna ekki lengur upphaflegum tilgangi sínum, eldast oftast illa og er
nú verið að grisja. Aðrar plöntutegundir eru strjálar, en setja samt
skemmtilegan svip á skóginn. Alls eru milli 70-80 tegundir af trjám og
runnum í skóginum og misjöfnum yrkjum af sömu tegund.

Skógræktarfélag  Skilmannahrepps

Skógræktarfélag  Skilmannahrepps, sem þróaðist úr ungmennafélagsskapnum,  hefur umsjón með skóginum en félagar þess eru rúmlega 60 talsins, flestir óvirkir stuðningaðilar. Á vinnufundi mæta 10-12 manns.

Aðstaða

Eldri hluti skógarins er orðinn vel vaxinn og stígar sem eru vel merktir hafa verið lagðir um þann hluta. Stígakerfi liggur einnig um yngri hluta skógarins. Undanfarin ár hefur aðgengi verið bætt til að almenningur geti notið þar ánægjulegrar útivistar í skjóli trjánna.

 

Nú er gjarnan talað um yndisskóg, þar sem markmiðið er að bæta gönguleiðir, auka fjölbreyttni í skóginum með vali á plöntum, vekja athygli á sérstökum plöntum, útsýni og sérkennum í náttúrunni með merkingum. Útbúin hefur verið aðstaða til að geta sest niður, hvílst, borðað nesti og unað sér. Yfirlitskort, merkingar stíga og göngukort af gönguleiðum gera svo gönguferðir enn meira aðlaðandi.

 

Álfholtsskógur - kort.jpg
bottom of page