top of page

Bæjarstaðaskógur

Ábyrgðaraðili: Vatnajökulsþjóðgarður

Fróðleikur
 

 

Almennt um skóginn

Innan þjóðgarðsins í Skaftafelli er töluverður skógur. Þekktastur er Bæjarstaðaskógur sem er einn hávaxnasti birkiskógur landsins og hefur verið nefndur einn af þremur höfuðskógum landsins. Birkið í Bæjarstaðaskógi er þekkt fyrir að vaxa mjög beint og verða hávaxið. Tré í skógum hafa náð að verða allt að 12 metra há. Þess vegna er birkið úr Bæjarstaðaskógi mjög vinsælt og hefur fræjum af trjánum verið safnað og þau notuð til að rækta birki annars staðar á landinu. 

 

Staðsetning og aðgengi

 

Bæjarstaðaskógur er í Morsárdal, vestan við Skaftafell. Skógurinn er í vesturhlíð dalsins og snýr móti suðaustri. Fjölfarin gönguleið er frá Skaftafelli yfir í skóginn, sem tekur um 4 tíma, fram og til baka. Spyrjist fyrir í ferðamannamóttökunni í Skaftafelli áður en haldið er af stað. 

Saga skógarins

Skömmu eftir 1930 komst á hreyfing um að friða skóginn fyrir beit, en jarðvegsrof var farið að ógna skóginum. Líklega má upphafsmaður þess teljast Ásgeir L. Jónsson er skrifar í Skógræktarritið (1930) um nauðsyn þess að girða skóginn og segir þar m.a:
"Er hörmung til þess að vita, að þessi fagri minnisvarði fortíðarinnar, sem hingað til hefir staðist allar árásir, á nú, á tímabili vaxandi þekkingar og andlegrar vakningar, að falla fyrir skeytingar- og áhugaleysi"

 

Að tilhlutan Skógræktarfélags Íslands var skógurinn girtur árið 1936.
Síðar var sú girðingin tekin niður er land þjóðgarðsins í Skaftafelli var girt af. Jarðvegsrof stöðvaðist ekki eins mikið og menn vonuðust eftir. Enn gekk slangur af kindum um svæðið sem var nóg til þess að teinungur óx ekki upp frá rótarhálsi trjánna né að sjálfsáning kæmist á legg. 

 

Í dag hefur þó skógurinn breiðst út, m.a vegna uppgræðslu á aurunum fyrir neðan gömlu birkirtorfuna, sem myndaði heppileg fræset. Þar er í dag vöxtulegur ungskógur. En er óvíst hvort gömlu trén á torfunn nái að endurnýja sig með nýteinungi, en sáralítil sjálfsáning er í þéttum sverðinum. 

 

Annað áhugavert um skóginum

Jarðvegurinn í "gömlu torfunni" er ákaflega þykkur fokjarðvegur, sem markaður er í lög af eldfjallaösku. Með hjálp öskulagatímatals má rekja sögu jarðvegsins, allt til þess er hann tók að myndast, 1-2 þúsund árum eftir lok ísaldar.

Merkileg munnleg heimild er til um lággróður í Bæjarstað 1891: Sigurður Björsson á Kvískerjum (1985) hefur eftir föður sínum, sem kom þar 12 ára gamall, að sortulyng hafi þá verið mjög áberandi. Þetta bendir til að skógur hafi jafnvel eyðst um tíma í Bæjarstað. Birkiskógarsvörður getur breyst í sortulyngsmó við langvarandi beit, eftir að skóginum hefur verið eytt.
Undirgróður í skóginum er nú eins og gerist í íslenskum birkiskógum, þar sem rakaskilyrðir eru góð.

 

 

 

 

 

 

bottom of page