top of page

Bergfura

Bergfura (Pinus uncinata) er sígrænt, hægvaxta, ein- eða margstofna tré með breiðkeilulaga krónu. Tegundin er upprunin í Pýreneafjöllunum og myndar þar hæstu skógarmörk, allt upp í 2.700 metra hæð. Hún á sér langa ræktunarsögu hérlendis og eru elstu reitirnir á Grund í Eyjafirði og Þingvöllum gróðursettir á árunum 1899-1913.

 

 

 

 

 

 

 

 

Notkun

Bergfura vex of hægt til að nýtast að ráði í viðarframleiðslu en er prýðileg til landgræðslu, í útivistarskóga og garða. Hún er viðkvæm fyrir furubikarsveppnum (Gremmeniella abietina) og því ætti aldrei að gróðursetja hana í of þétta samfellda reiti þar sem sveppurinn getur náð sér á strik.


Ræktun

Bergfura er nægjusöm trjátegund og þrífst vel í flestum jarðvegsgerðum. Hún er líkt og aðrar furur ljóselsk og þolir vindálag betur en stafafura. Hana kelur nær aldrei hérlendis og sviðnar síður í þurranæðingum á útmánuðum. 

Bergfura ber fallegan dökk-grágrænan lit og verður bústin og mikil um sig ef hún fær pláss. Getur hún því verið fallegt stakstætt tré, eða í litlum þyrpingum í görðum og útivistarsvæðum. Ef búið er að planta henni í þétt ætti að grípa inn í fyrr en síðar og minnka bil milli trjáa, svo sólarljós leiki um trén.

Sumir telja bergfuruna aðeins eina þriggja undirtegunda Pinus mugo, og ber þá bergfuran latínuheitið Pinus mugo var. uncinata. Önnur undirtegundin er sú sem við köllum fjallafuru (Pinus mugo var. mugo). Deila þær útbreiðslusvæði að hluta og víxlast og mynda þriðju undirtegundina sem ber latínuheitið Pinus mugo var. rotundata. Hefð er fyrir því hérlendis að tala um bergfuru og fjallafuru sem sér tegundir, enda vanalega talsvert ólíkar í svipgerð. Fjallafura er runnakennd fura sem er afar sjaldan einstofna.


 

Meindýr og sjúkdómar

Furulúsin (Pineus pini) getur valdið skemmdum á bergfuru, en sveppurinn furubikar (Gremmeniella abietina) er helsta ógnin og getur drepið tré og jafnvel heilu reitina ef þeir standa of þétt.  

 

Greining

Eitt helsta einkenni bergfura (á meðan þær hafa pláss) er hvað þær virka bústnar og breiðar um sig. Hliðargreinar eru miklar og sverar og leita upp á við með aðalstofninum. Oft á fólk erfitt með að greina milli tveggja algengustu furutegundanna hérlendis, stafafuru og bergfuru. Nálar stafafuru eru styttri og ljósari á litinn en bergfuru, sem bera dökk-grágrænan lit. Stafafura er einnig nánast alltaf einstofna á meðan ósjaldan vex bergfura með 2 eða fleiri aðalstofna. 

 

Bergfurur á Vopnafirði

Bergfurur á Vopnafirði

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Dreifðar bergfurur á Stöðvarfirði

Dreifðar bergfurur á Stöðvarfirði

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Bergfurur á Seyðisfirði

Bergfurur á Seyðisfirði

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Bergfurur á Seyðisfirði

Bergfurur á Seyðisfirði

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Fjallafuruvaxtarlag

Fjallafuruvaxtarlag

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Ungar bergfurur á Reyðarfirði

Ungar bergfurur á Reyðarfirði

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Ungar bergfurur á Seyðisfirði

Ungar bergfurur á Seyðisfirði

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Bergfura í Heiðmörk

Bergfura í Heiðmörk

Ljósmynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir

Bergfurur á Seyðisfirði

Bergfurur á Seyðisfirði

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Bergfura þolir vel rýran jarðveg

Bergfura þolir vel rýran jarðveg

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

Nálar og brum

Nálar og brum

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

bottom of page