top of page

Brynjudalsskógur

Ábyrgðaraðili: Skógræktarfélag Íslands

Fróðleikur

 

 

Sumarið 1975 keypti Landgræðslusjóður helmingshlut í jörðinni Ingunnarstöðum (með Hrísakoti) og fjórðungs hlut þremur árum síðar. Sjóðurinn á því ¾ hluta jarðarinnar eða nær allt land norðan Brynjudalsár, frá mörkum Skorhaga og Ingunnarstaða og upp í Botnssúlur. Skógrækt ríkisins var falið að girða af vöxtulegustu skógarleifarnar sem þá voru í dalnum og hefja þar skógrækt. Flatarmál girðingarinnar er um 50 ha og voru fyrstu trén gróðursett á 8. áratug 20. aldar.

 

Skógræktarfélag Íslands eignaðist skóginn í tveim áföngum og hefur síðan um 1990 lagt megin áherslu á jólatrjáarækt og uppbyggingu útivistaraðstöðu í dalnum. Auk nytja af jólatrjám er gott berjaland í skóginum. Aðalbláber og hrútaber eru í mikilli sókn en auk þeirra má finna bláber og krækiber. Einnig eru viðarnytjar vaxandi og hefur viður úr skóginum m.a. verið notaður til byggingar skjólhýsa og stígagerðar auk notkunar sem eldiviður, sem kemur að góðum notum við gestamóttöku og uppihald vinnuflokka í skóginum. Á Ingunnarstöðum er lítið sauðfjárbú og gengur féð í dalnum og skóginum á sumrin en þar sem gróðurþekja hefur eflst og fé fækkað er girðingum ekki lengur haldið við og hafa þær verið fjarlægðar að hluta.

 

Lagðir hafa verið göngustígar um skóginn og þjóna sumir jafnframt sem þjónustuvegir en eru ekki opnir almennri umferð vélknúinna farartækja. Göngustígarnir þjóna einnig sem upphaf hefðbundinna gönguleiða, svo sem um Laugabrekkur inn hálsinn og um Leggjarbrjót til Þingvalla eða upp á Botnssúlur (þar er hæst Syðsta súla, 1.093 m y.s.). Um Laugabrekkur liggur einnig leiðin yfir hálsinn norður í Botnsdal og að Glym. Frá efstu skógarstígum liggur einnig auðveldasta leiðin um Hrísháls og út Múlafjall en þaðan er gott útsýni yfir dali og fjörð.

 

Tvö skjólhýsi eru í skóginum, Tjaldið (50 fermetrar) sem reist var 2003 og Höllin (100 fermetrar) sem reist var 2009. Helstu áningarrjóður eru Hvammurinn í botni Kerlingadals (fyrir neðan Tjaldið) og Fururjóðrið milli Hrísakots og Hvammsins. Við Fururjóðrið hefur verið komið upp þrautabraut.
 

Öllum er velkomið að nýta þessa aðstöðu til skemmri dvalar og einu kvaðirnar eru að ganga vel um, fara varlega og skilja ekki eftir sig rusl. Þá er öllum velkomið að tína ber og sveppi.

Jólatrjárækt er stunduð í fjáröflunarskini og eru jólatré úr Brynjudal eftirsótt á markaði. Einnig er tekið á móti skipulögðum hópum (mest starfsmönnum fyrirtækja og fjölskyldum þeirra) á jólaföstunni. 

 

bottom of page