Fjólur
Hrútaber (Rubus saxatilis) er eitt af skógarberjum okkar Íslendinga þó tegundin vaxi einnig utan þeirra. Hrútaberin eru vinsæl hjá fuglum og mönnum og er útbreiðsla hrútaberja að aukast með beitarfriðun og víðfemari skógum.
Útlit
Lágvaxin fjölær jurt (10-35 cm) með þrífingruðum sagtenntum blöðum sem bera djúpar rákir. Á blöðum og stilkum er að finna smáa þyrna og blómgun hvítra blóma á sér stað í júlí.
Einkennandi fyrir tegundina eru hin skærrauðu ber er taka þroskast við sumarlok og skriðulra, einæra jarðrengla sem vaxa út frá rótarhálsi og geta orðið margir metrar á lengd.
Áður en aldin myndast getur útlit plöntunnar minnt á jarðaber, enda bygging og blöð afar svipuð. Einföld leið til þess að greina þar á milli er að líta á miðsmáblaðið, því ef það situr á stilk þá er um hrútaber að ræða og að auki eru engir þyrnir á á jarðarberja plöntum.
Útbreiðsla
Tegundina er að finna um land allt á láglendi en vex allt uppí 500 metra hæð yfir sjávarmáli við góð skilyrði.
Búsvæði
Hrútaber vaxa í frjósömum gras- og lyngbrekkum, kjarrlendi og skógum. Tegundin er skuggþolin og getur vaxið undir þéttu birkikjarri en berjasprettan verður ekki góð nema við góð birtuskilyrði. Getur orðið mjög áberandi á stórum svæðum í hálfopnum skógum, þar sem samkeppni við hærri tegundir er ekki of mikil. Nemur fljótt auðan skógarbotn í nýgrisjuðum skógi.
Annað áhugavert
Samkvæmt þjóðtrú mátti nota jarðrenglur hrútabersins til að fjötra illa vætti og voru því renglurnar nefndar skollareipi eða tröllareipi.
Hrútaber á skógarbotniLjósmyndari: Brynjólfur Jónsson | Rauð aldin hrútaberjaLjósmyndari: Jón Ásgeir Jónsson |
---|---|
Rauð aldin hrútaberjaLjósmyndari: Jón Ásgeir Jónsson | Berin sitja þétt saman í klösumLjósmyndari: Jón Ásgeir Jónsson |