Fossá
Ábyrgðaraðilar
Skógræktarfélög: Kópavogs, Mosfellsbæjar, Kjalarnes,
Kjósarhrepps.
Fróðleikur
Skógræktarfélag Kópavogs Skógræktarfélag Mosfellsbæjar
Skógræktarfélag Kjalarness Skógræktarfélag Kjósarhrepps
Fossá var formlega tekin inn í Opinn skógur verkefnið 27. ágúst 2011, er Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra klippti á borða yfir stíg inn í skóginn.
Lýsing
Fossá er í Hvalfirði. Fossárjörðin er að náttúru skjólgott svæði og hinn mikli skógur sem þar vex eykur enn á það. Svæðið hefur margt að bjóða auk náttúrufegurðar og útsýnis. Þar er einstök kræklingafjara undan Fossárósum, berjaland er með því besta sem gerist á góðum berjasumrum og sjálf Fossáin með fossum og flúðum og Kálfadalurinn eru mikil náttúruprýði. Þá eru gönguleiðir að Vindáshlíð/Gíslagata og Reynivöllum/Kirkjustígur greiðfærar frá Fossá. Botnsúlur og Hvalfell sjást vel frá Fossá og draga að sér göngufólk og handan Hvalfjarðar er Skarðsheiðin og Saurbær á Hvalfjarðarströnd. Jörðin Hvítanes liggur að Fossá og þar eru stríðsáraminjar enn sýnilegar.
Skógrækt
Fornar heimildir geta þess að talsverður skógur hafi verið að Fossá fyrr á tímum. Hann var notaður til eldiviðar og kolagerðar og hrossum og öðrum búfénaði var einnig beitt í skóginum að vetrarlagi. Enn er talsverður náttúrulegur birkiskógur að Fossá, austan ár. Sama á við um Botnsdal, Brynjudal og Vindáshlíð.
Ljósmyndari: Brynjólfur Jónsson
Ljósmyndari: Ragnhildur Freysteinsdóttir
Ljósmyndari: Ragnhildur Freysteinsdóttir
Ljósmyndari: Brynjólfur Jónsson
Árið 1972 keyptu Skógræktarfélag Kjósarsýslu og Skógræktarfélag Kópavogs jörðina Fossá í Kjós. Átti hvort félag sinn helming. Eignarhaldið hefur breyst þannig að Skógræktarfélag Kópavogs á enn hálfa jörðina en hinn hlutinn hefur skipst upp milli skógræktarfélaganna í Mosfellsbæ, á Kjalarnesi og í Kjósarhreppi.
Jörðin er 1100 hektarar. Náttúrulegi birkiskógurinn austan ár hefur vaxið og dafnað þau ár sem liðin eru síðan félögin eignuðust jörðina og alls hafa á þeirra vegum verið gróðursettar um 900.000 plöntur þessa fjóra áratugi. Ríkjandi tegundir í gróðursetningunni eru greni, fura og birki. Skógrækt ríkisins kom upp asparlundi í tilraunaskyni 1990 og þar má sjá hvernig ýmsum afbrigðum aspa vegnar í landinu.
Núverandi eigendur, skógræktarfélögin fjögur, stofnuðu árið 2001 rekstrarfélag um skógræktina á jörðinni og aðrar framkvæmdir þar, svo sem stígagerð og lagningu vega í skóginum. Þetta rekstrarfélag nefnist Fossá, skógræktarfélag. Það hefur einkum tekjur af sölu jólatrjáa, en á seinustu árum hefur sala á skógarviði til margvíslegra nota einnig komið til. Þá hefur félagið staðið fyrir ræktun jólatrjáa á gömlum túnum sem komin voru í órækt.
Þegar félögin eignuðust jörðina 1972 var vestan ár stórt og gott tún og beitiland en enginn skógur. Fyrri eigandi jarðarinnar, Björgvin Guðbrandsson, brá búi 1978 en var til heimilis að Fossá þar til hann lést 1986. Hann var hlynntur skógrækt á jörðinni og sá fyrir að hún væri í „góðum höndum“ til slíkrar starfsemi.