top of page

Gaddstaðaflatir

-Upplýsingar

Ábyrgðaraðili: Skógræktarfélag Rangæinga

 

 


 

 

 

 

Aldamótaskógurinn á Gaddstöðum er 130 ha að stærð.  Sjá má leifar af gömlu Rangárvöllum á nokkrum valllendiseyjum í hallinu vestan við Gaddstaðasíki, nálægt suðurmörkum Aldamótaskóga. Landgræðsla ríkisins hóf uppgræðslu á um 300 ha svæði á Gaddstaðasandi árið 1985, í samstarfi við Rangárvallarhrepp og Landsmótshaldara á Gaddsstaðaflötum. Þegar Aldamótaskógaverkefnið hófst var gróðurþekja svæðisins lítil nema þar sem lúpína og melgresi hafði náð fótfestu. Vel hefur tekist til við skógræktina, við frekar erfið skilyrði og hefur Skógræktarfélag Rangæinga notið dyggrar aðstoðar Kaupþings, Landgræðslu ríkisins, Landsvirkjunar, Skógræktarfélags Íslands og Rangárþings ytra.

Gaddstaðir eiga sér töluverða sögu. Í fyrra bindi Rangvellingabókar (1982) eftir Valgeir Sigurðsson frá Þingskálum, segir: 
„Bærinn Gaddstaðir finnst fyrst nefndur í máldaga Oddakirkju 1270. Þar er hann nefndur Gauxstaðir, það er Gauksstaðir, en nafnið Gaddstaðir kemur fyrst fyrir í Vilkinsmáldaga Oddakirkju frá 1397. Bærinn stóð upphaflega sunnan í lágum ás skammt austur frá núverandi brú á Ytri-Rangá, en var árið 1896 fluttur um 2-300 metra til norðvesturs á slétta grund við Ytri-Rangá, þar sem nú stendur kauptúnið Hella. Jörðin lagðist í eyði 1957.“


„Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1711 var landkostum Gaddstaða lýst á þessa leið: „Beitarland er mestan part komið í sand og lítið utantúns eftir orðið grasivaxið.“ Við jarðamat 1849 var Gaddstöðum lýst þannig: „Tún góð, en liggja fyrir sandágangi. Engjar reytingssamar af landi til hagbeitar. Skikar einir eftir.“ Við endurmat Gaddstaða 1884 var jörðinni lýst á þessa leið: „Bæjar- og túnstæði svo að segja af vegna sandágangs og hvergi óhultur staður fyrir það í landareigninni. Nes við Rangá ytri útnorður af bænum ennþá lítt skemmt. Óskemmd engjaskák í Hrafntóftalandi. Hagaskák vestur með Rangá ennþá lítt skemmd, lítill hagahólmi í Rangá (Gaddstaðaey), óskemmdur, grasblettir suður við Selalæk og vestur á sandi eru rótlaust sauðakropp á sumardegi.“ Lýsing Gaddstaða við fasteignamat 1940 var svofelld: „Tún: 2/3 vélfært, annað greiðfært. Engjar: Reitingssamar, þýfðar. Beitiland: Að mestu valllendi og örfoka sandur. Fremur lítið beitiland, en sæmilegt til beitar. Ókostir: Nokkur ágangur. Beitiland mjög eytt af sandfoki.” „Síðast ábúandi á Gaddstöðum var Ingibjörg Jónsdóttir fædd 11. ágúst 1897 á  Ægisíðu. Hún bjó á Gaddstöðum eftir mann sinn frá 1944-1957.”

 

 

 

 

 

 

bottom of page