top of page

Grundarreitur

Ábyrgðaraðili: Skógræktin

Fróðleikur
 

 


Almennt um skóginn

Grundarreitur er í Eyjafirði, lætur ekki mikið yfir sér og virðist tilsýndar e.t.v. ekki sérstakur. Hann er þó ekki síður merkilegur en Furulundurinn á Þingvöllum, þ.e. hefur svipaða sögulega og fræðilega þýðingu fyrir skógrækt og markar upphaf hennar á Íslandi.

Staðsetning og aðgengi

Skógurinn er ofan við veg þegar komið er að kirkjustaðnum Grund í innanverðum Eyjafirði. Hafa þarf augun hjá sér þegar keyrt er í nágrenni Grundar og því auðvelt að keyra framhjá reitnum. Nýlega hafa bílastæði verið endurbætt.

 

Aðstaða og afþreying

Um reitinn liggja stígar og merkingar eru við margar trjátegundir þannig að reiturinn þjónar sem eins konar trjásafn. Áningarstaður með borðum og bekkjum er í miðjum reitnum. Í reitnum hafa verið haldnar listsýningar og uppákomur, en það merkilegasta við reitin eru trén sjálf sem flest eru meira en aldargömul.


Saga skógarins

Sumarið sem byrjað var að gróðursetja til Furulundarins á Þingvöllum, árið 1899, fóru þeir Carl H. Ryder og Einar Helgason norður í land í leit að hentugum stað fyrir sambærilegar skógræktartilraunir og hafnar voru á Þingvöllum. Bauð stórbóndinn á Grund, Magnús Sigurðsson, fram land til tilraunarinnar endurgjaldslaust og hafist var handa við gróðursetningu í 1,6 ha reit árið 1900. Girðingin var svo stækkuð 1952 og er reiturinn nú rúmlega þrír hektarar að flatarmáli. Skógræktin hefur haft umsjón með Grundarreit síðan hún var stofnuð 1907.

 

Trjárækt í skóginum

Saga trjáræktar í Grundarreit er um margt svipuð sögu Furulundarins á Þingvöllum. Í upphafi voru gróðursettar og endurgróðursettar í reitinn samtals yfir 27.000 trjáplöntur af 16 tegundum, þær sömu og í Furulundinn. Christian Flensborg getur þess að mikið hafi verið um afföll. Árið 1930 lýsir Hákon Bjarnason reitnum sem „samfelldri fjallafurubeðju" um mannhæðarhárri með nokkrum hærri lerkitrjám í norðvesturhorni girðingarinnar. Árið 1936 heimsótti Flensborg Ísland og fór um landið í fylgd Hákonar, m.a. í reitina sem hann hafði gróðursett 30 árum áður. Var þá fjallafuran orðin 3-4 m há og lerkið 4-5 m. Þá bar talsvert á rótarskotum blæaspar en aðrar tegundir voru ekki áberandi. Hákon getur þess að „á stríðsárunum var töluvert grisjað af fjallafurunni og notað í jólaskreytingar. Þá fyrst komu lindifururnar í ljós." Veturinn 1974-1975 var svo mikið snjóbrot að megnið af fjallafurunni var hreinsað burt í kjölfarið. Opnuðust þá rjóður þar sem aðrar tegundir gátu notið sín. Einkum tók blæöspin vel við sér eftir þá grisjun og var fljót að fylla í rjóðrin.

Árið 1952 var girðingin stækkuð um helming til austurs og er það þessi nýrri hluti reitarins sem er nær veginum. Hófst þá aftur gróðursetning eftir 50 ára hlé. Alls voru gróðursettar 12 trjátegundir á árunum 1954-1982 í nýja svæið og nokkuð í rjóðrin eftir grisjun fjallafurunnar 1975. Árin 1993-1994 var Grundarreitur grisjaður hressilega, göngustígar lagðir og merkingar settar upp til að gera hann aðgengilegan almenningi.

Grundarreitur er nú fjölbreyttur og fallegur blandskógur, svipður og Furulundurinn. Gömlu lindifururnar eru glæsilegar og upphaflegu blæaspirnar eru stærstu tré þeirrar tegundar á landinu. Það er vel þess virði að gera sér ferð í Grundarreit. Þá er ekki síður forvitnilegt að heimsækja bæði Grundarreit og Furulundinn á sama sumrinu og bera saman útkomuna í þessum tveimur elstu skógarreitum landsins.

 

 

Annað áhugavert í skóginum

Í miðjum reitnum er hóll, en af honum er ágætt útsýni. Sagt er að í honum sé grafinn fjársjóður.

 

Fengið með leyfi frá: www.skogur.is

 

 

 

 

 

bottom of page