top of page

Gunnfríðarstaðaskógur

Fróðleikur

 

 

Saga skógræktar á Gunnfríðarstöðum


Skógræktarfélag Austur-Húnvetninga er áhugafélag um skógrækt og gróðurvernd. Félagið var stofnað 14. maí 1944 á Blönduósi. Fyrstu árin var starfsemin aðallega bundin við að styðja félög og einstaklinga í skógrækt, en félagið kom að átján skógarreitum í sýslunni sem margir eru vöxtulegir í dag og má þar nefna Hrútey við Blönduós.


Árið 1961 fékk félagið jörðina Gunnfríðarstaði á Bakásum að gjöf og hóf gróðursetningu strax árið eftir. Jörðin hafði þá verið í eyði í allmörg ár. Gefendurnir voru hjónin Helga Jónsdóttir og Steingrímur Davíðsson.


Fyrstu fjögur árin voru gróðursettar um 74 þúsund trjáplöntur en ekkert var sett niður árið 1966 vegna baráttu við grasið. Fram að árinu 2000 voru gróðursettar um 200 þúsund trjáplöntur sem í dag mynda rúmlega 70 ha myndarlegan skóg. Frá árinu 2000 hefur fyrst og fremst verið plantað í Landgræðsluskógaverkefninu sem er á efri hluta jarðarinnar og hafa verið settar niður tæpar 100 þúsund plöntur eða samanlagt um 300.000 plöntur á 50 árum. Mest hefur verið sett niður af lerki, birki og stafafuru. Hafa ýmsir hafa komið að gróðursetningu. Margir sjálfboðaliðar úr sýslunni, verktakar, félagasamtök, fermingarbörn og ungmenni frá Blöndustöð.


Umhirða hefur verið töluverð og unnið hefur verið að grisjun, stígagerð og betri aðstöðu fyrir skógargesti, en móttaka gesta er orðin ríkur þáttur í starfsemi félagsins á Gunnfríðarstöðum en þar er tjaldsvæði, snyrting og grillaðstaða. Margir koma í skóginn til að fella sitt eigið jólatré fyrir jólin og vaxandi er að fólk nýti sér göngustígana. 

 

Náttúrulegur trjágróður er töluvert áberandi í eldri hluta Gunnfríðarstaðaskógar. Gulvíðirunnar eru margir mjög stórir og loðvíðirinn er fallegur. Skógurinn er fjölbreyttur, opinn og góður til útivistar. Þá hefur birkið og stafafuran sáð sér út í gróðurberan jarðveg. Mikið fuglalíf er í skóginum. Ber þar mest á skógarþröstum, auðnutittlingum og álftum við Blöndu. Branduglur eru allt árið í skóginum og refir læðast inn á opnu svæðin.
 

 

 

 

 

 

bottom of page