top of page

Höfðaskógur

Fróðleikur

 

Starfsstöð Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er suðvestan Kaldárselsvegar skammt frá Hvaleyrarvatni, á landsvæði sem hlotið hefur nafnið Höfðaskógur. Félagsaðstaða og ræktunarstöð félagsins er á Beitarhúsahálsi sem dregur nafn sitt af Jófríðarstaðaseli sem varð að beitarhúsi þegar selfarir lögðust af. Þar sem selið stóð eru nú tóftir beitarhúss sem var sennilega byggt rétt fyrir aldamótin 1900. Tóftirnar sjást ennþá en húsið stóð skammt frá þeim stað þar sem nú er útikennslustofa félagsins; einfalt skýli með bekkjum inn á milli trjánna í fallegum lundi. Kennslustofan var útbúin að tilstuðlan skólastjórahjónanna Harðar Zóphaníassonar og Ásthildar Ólafsdóttur sem gáfu félaginu peningagjöf á 60 ára afmæli þess í því skyni að efla áhuga skólabarna á skógrækt.

 

Höfðinn suðaustan við Beitarhúsaháls er sennilega nefndur eftir beitarhúsinu, en eldra nafn á höfðanum er Heimastihöfði, enda sá höfðanna sem er næstur Jófríðarstaðabænum. Hann er samt ekki nær en svo að það skeikar um kílómetra. Nokkrir höfðar til viðbótar falla undir Höfðaland, sem nú er aðal ræktunarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Höfðarnir heita auk Húshöfða, Selhöfði, Stórhöfði, Miðhöfði og Efstihöfði sem var allt eins nefndur Fremstihöfði. Einn höfði til viðbótar var tilgreindur í gömlum skjölum og nefndur Þormóðshöfði. Hann heitir í dag einu nafni Langholt enda frekar um holt eða ás að ræða en eiginlegan höfða.

 

Þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað haustið 1946 fékk stjórnin 32 hektara landspildu útmælda við Vatnsendann norðaustan Hvaleyrarvatns. Hugmyndin var að hefja þar ræktun vorið 1947, en vegna mikilla vorkulda var ekki talið ráðlegt að hefja þar gróðursetningu að svo komnu máli. Þess í stað var 7 hektara spilda í nyrsta hluta Gráhelluhrauns girt og þar var gróðursett af krafti næstu árin. Vorið 1956 fékk Hákon Bjarnason skógræktarstjóri
nokkuð stóra landspildu afhenta í Vatnshlíð. Hann hófst von bráðar handa við að brjóta landið undir ræktun ásamt fjölskyldu sinni og vinum. Nokkrum árum seinna reisti hann sumarhús fyrir fjölskylduna á þessum reit og stendur það hús enn í dag. Hákon var merkur frumkvöðull og þegar hann hafði undirbúið ræktun í Vatnshlíð töldu félagar í Skógræktarfélaginu að rétt væri að hefjast handa við samskonar landbótarvinnu suðvestur af Beitarhúsahálsi.

 

Sumarið 1957 var 32 hektara landspilda girt og hófst gróðursetning vorið 1958 í nánast örfoka hlíðinni. Rofabarðstorfur voru stungnar niður, áburður borinn á börðin og grasfræi sáð þar sem þurfa þótti. Með mikilli elju, þrautsegju og óbilandi trú á að hægt væri að græða landið tókst að breyta leirkenndum moldarflögum í gróskumikið gróðurlendi á löngum tíma. Girðingin var stækkuð í áföngum og þar kom að allt Höfðalandið var lagt undir ræktun árið 1979 þegar fjárheld girðing umlukti loksins höfuðborgarsvæðið. 

 

Nokkrir vegslóðar voru lagðir um Höfðana, landið reitað niður og deilt út til einstaklinga, fjölskyldna, félaga og fyrirtækja sem tóku land í fóstur árið 1980. Víða hafa vaxið upp fallegir trjálundir og gróðurinn sækir sífellt í sig veðrið þó sums staðar sé trjávöxturinn frekar stutt á veg kominn. Landsvæðin sem tekin voru í fóstur hafa notið landbótanna í ríkum mæli og hafa holtin skrýðst hægt en örugglega margvíslegum gróðri. Þar sem áður voru moldarflög og viðvarandi uppblástur er nánast órofin gróðurþekja.

 

Trjágróðurinn í Höfðaskógi er af margvíslegum toga en mest ber á greni, furu, birki, víði, reyni og aspartegundum. Fjölbreytnin er meiri en þessi listi ber með sér því innan svæðisins hefur víða verið plantað út ótrúlegustu tegundum sem margar hverjar spjara sig býsna vel. Á 50 ára afmæli Skógræktarfélagsins árið 1996 var opnaður trjásýnilundur með rúmlega 250 trjátegundum og kvæmum á elsta ræktunarsvæðinu ofan Hvaleyrarvatns. Á síðustu árum hefur einnig verið unnið að því að planta út öllum þekktum tegundum rósa sem finnast hér á landi í suðurhlíðum Húshöfða. Þetta er samstarfsverkefni Skógræktarfélag Hafnarfjarðar og Rósaklúbbs Garðyrkjufélags Íslands. Spennandi verður að fylgjast með því hvernig rósirnar spjara sig í þessum norðlæga rósagarði.

 

Haustið 2009 var haldin alþjóðlega ráðstefnan „Skógar efla lýðheilsu í þéttbýli“ á Grand Hóteli í Reykjavík. Ráðstefnugestir fóru í skoðunarferð um höfuðborgarsvæðið með viðkomu á Þingvöllum og komu m.a. við í Höfðaskógi. Mjög fróðlegt var að heyra álit sérfræðinga á sviði skipulags útivistarsvæða sem töldu Höfðaskóginn við Hvaleyrarvatn eitt best heppnaða svæðið sem þeir komu á í þessari skoðunarferð.

 

 

 

 

bottom of page