Fróðleikur
Lýsing
Hrútey er skrautfjöður í hatti Blönduósbæjar, umlukin jökulánni Blöndu. Hrútey skartar fjölbreyttum gróðri. Mest ber á trjágróðri og lyngmóum. Birki og stafafura er áberandi en ýmsar aðrar trjátegundir þrífast ágætlega. Fjöldamargar aðrar tegundir plantna eru í eyjunni. Fuglalíf er auðugt og gæsin á griðland þar ásamt öðrum fuglum.
Hrútey var aldrei byggð en nytjuð um aldir til beitar. Til forna tilheyrði hún jörðinni Klifum eða Kleifum sem m.a. er getið í Heiðarvígasögu. Bærinn stóð á syðri bakka Blöndu á móti Hrútey. Árið 1318 á Hjaltabakkakirkja heimaland allt að Klifum og alla Hrútey. Síðan er hún talin með eyðijörðum. Á 18. öld kemst jörðin aftur í ábúð og fær þá heitið Klifakot. Blönduóshreppur keypti Hrútey árið 1923 af Hjaltabakka.
Blanda er ekki alltaf árennileg og betra að fara með gát. Fært var yfir ána yfir í Hrútey á vöðum og eru þau stundum farin ef koma þarf tækjum yfir. Fyrrum var stundum brúað með trjám þar sem farvegur árinnar er þrengstur. Þegar eyjan var nytjuð til beitar var sauðfé rekið á sund yfir ána. Haustið 1957 var hafin bygging göngubrúar en Blanda eyðilagði undirstöður hennar. Notast var við bráðabirgðabrú þar til núverandi brú var tekin í notkun árið 1988.
Skógrækt
Snemma var farið að ræða um að gera Hrútey að útivistarsvæði. Hrútey var friðuð fyrir búfé árið 1933. Vorið 1942 hófst svo skógrækt í eyjunni og voru fyrstu trén gróðursett af skátafélaginu á Blönduósi. Síðan hafa ýmis félög og félagasamtök komið að gróðursetningu og umhirðu í eyjunni.
Skógræktarfélag Austur Húnvetninga
Félagið var stofnað á Blönduósi 14. maí 1944.
Ljósmyndari: Brynjólfur Jónsson
Ljósmyndari: Brynjólfur Jónsson
Ljósmyndari: Brynjólfur Jónsson
Ljósmyndari: Brynjólfur Jónsson