top of page

Ilmbirki

Ilmbirki (Betula pubescens) vex á breiðu belti, allt frá Nýfundnalandi í vestri, þvert yfir Evrópu, austur eftir Síberíu og nánast til Kyrrahafsstrandar. Tegundin hefur afar fjölbreytt vaxtarlag og getur verið einstofna beinvaxið tré eða jarðlægur fjölstofna runni og allt þar á milli. Ilmbjörkin er eina innlenda trjátegundin sem myndar skóga hérlendis. Við landnám er talið að um þriðjungur Íslands hafi verið þakinn birkiskógi, jafnvel allt að 40% landsins.

 

Notkun

Þar sem ilmbirki var eina tegundin sem hér myndaði skóga við landnám þá treysti þjóðin á birkið og notkunarsagan því löng. Birkið var notað sem eldiviður, til beitar, í kolagerð og smíðar. Óhófleg nýting, kólnandi veðurfar og ofbeit útrýmdi birkiskógunum nánast að fullu.

Í dag er ilmbirki mest gróðursetta trjátegund landsins og á sérstakan stað í hugum landsmanna. Ilmbirkið er gullfallegt útivistartré, duglegt að sá sér út og mikilvægt fyrir ýmsar fuglategundir. Tegundin verður þó seint nýtt til umfangsmiklar viðarframleiðslu, því rúmmálsvöxturinn er fremur hægur og sjaldan verða stofnar svo beinir að úr verði efniviður til flettingar. Unnið er að kynbótum á ilmbirki svo hugsanlega verða til afbrigði í framtíðinni sem nýtast betur til viðarnota. Viðurinn þykir þó heppilegur til ýmissa annarra nota, svo sem í útskurð og eldivið en löng hefð er fyrir sjálfbærri eldiviðarframleiðslu í Vaglaskógi.


Ræktun

Ilmbjörk er nægjusamt, harðgert og vindþolið tré sem þolir að vaxa við fremur slæm jarðvegsskilyrði. Þó verður vöxtur hægur í næringarsnauðum jarðvegi og til þarf margar áburðargjafir til þess að koma plöntunum á legg.

Hafa verður í huga hinn mikla erfðafræðilega breytileika sem finna má innan tegundarinnar við staðarval. Erfðaefnið getur skorið úr um hvort úr verði kræklóttur runni eða hávaxið tré. 

Birki lætur yfirleitt ekki plata sig af stað á vorin, né bíður með að hausta sig, og verður því sjaldan fyrir kali.

 

Meindýr og sjúkdómar

Á ilmbirki þrífst ýmis óværa í formi smádýra. Lirfur fiðrilda líkt og tígulvefara (Epinotia solandriana), birkivefara (Acleris notana), haustfeta (Operophtera brumata) og birkifeta (Rheumaptera hastata) geta valdið skaða á skógum og jafnvel drepið tré á stóru svæði, sérstaklega ef það geisa faraldrar ár eftir ár.
 

Lirfur nýlegs landnema, birkismugunnar (Eriocrania unimaculella), smjúga inn í laufblöðin er þau taka að myndast og hola þau að innan. Enn er órannsakað hversu víðtæk áhrif birkismugan getur haft á vöxt og lífslíkur birkis. Birkihnúðmý (Semudobia betulina) verpir í birkirekla og lifa lirfurnar á fræhvítunni. Mýið hefur því ekki áhrif á þrif birkis, en getur dregið mjög úr framleiðslu spírunarhæfs birkifræs. Tvær tegundir lúsa þrífast á birki, birkiblaðlús (Betulaphis quadrituberculata) og birkisprotalús (Betulaphis quadrituberculata). Þær eru garðeigendum til ama, en valda litlu tjóni.


Birkiryð (Melampsoridium betulinum) leggst á íslensku birkitegundirnar, fjalldrapa og ilmbirki. Iðulega hefur það ekki mikil áhrif á fullvaxið birki, en getur dregið úr vaxtarþrótti yngri plantna og getur verið plága í plöntuuppeldi.

 

Greining

Birki er auðþekkt á smágerðu, tenntu laufi og ljósum pappírskenndum berki. Árssprotar eru þaktir fínum mjúkum hárum, en latínutegundaheitið „pubescens“  þýðir einmitt „dúnhærður“. 

Ung ilmbjörk í Þórsmörk

Ung ilmbjörk í Þórsmörk

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Birki í Hallormstaðarskógi

Birki í Hallormstaðarskógi

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Vaglaskógur

Vaglaskógur

Ljósmynd: Ester Ösp Gunnarsdóttir

Birki í Hallormsstaðarskógi

Birki í Hallormsstaðarskógi

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Rauðbrúnn birkistofn

Rauðbrúnn birkistofn

Ljósmyndari: Ragnhildur Freytsteinsdóttir

Kliftjörn í Hallormstaðarskógi

Kliftjörn í Hallormstaðarskógi

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Nýgróðursett birki

Nýgróðursett birki

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Ilmbjarkarlauf

Ilmbjarkarlauf

Ljósmynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir

Birki hlaðið reklum

Birki hlaðið reklum

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

Karl- og kvennreklar

Karl- og kvennreklar

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

Ungur birkiskógur

Ungur birkiskógur

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

bottom of page