top of page

Ilmreynir

Ilmreynir (Sorbus aucuparia) er innlend trjátegund sem vex víða um land. Hún myndar ekki samfellda skóga heldur kemur fyrir sem stakstætt tré, þó þéttleiki sé sums staðar hár líkt og í Ásbyrgi. Ilmreynir hefur einnig verið fluttur inn frá Evrópu til notkunar í garð- og skógrækt. Tegundin er frekar skammlíf og verður yfirleitt ekki eldri en 100-150 ára.  Ilmreynir er lítið til miðlungsstórt tré, en hæsti einstaklingurinn hérlendis er nú um 15 m.

 

 

 

Notkun

Ilmreynir er ein af okkar albestu tegundum í yndisskógrækt og í garða; fallegir haustlitir, hóflega hávaxinn og berjamyndun sem eru mikilvæg fæða ýmissa fuglategunda. Ilmreynir er yfirleitt notaður sem stakstætt tré líkt og hann vex í náttúrunni, frekar en til samfelldrar skógræktar. Tegundin á sér langa ræktunarsögu hérlendis og er algeng í görðum um land allt og hægt að finna gömul tré í bæjarkjörnum og víða við bóndabæi. 


Ræktun

Ilmreynir er frekar harðgerð trjátegund, sem rækta má um allt land. Hann þarf fremur frjósaman og vel framræstan jarðveg. Því er mikilvægt að losa vel um jarðveginn og bæta hann með lífrænum áburði ef gróðursetja skal í rýrt land. Í æsku er hann hraðvaxta og er til bóta að binda við hann stoð í uppvextinum til stuðnings. Tegundin er í meðallagi seltu- og vindþolin.

Ilmreynir er ljóselsk trjátegund, en þolir þó vel hálfskugga í æsku, enda aðlagaður að því að vaxa upp í gegnum annan gróður. Upp með stofni hans koma oft upp stofnskot; þau er sjálfsagt að fjarlæga í garðræktun.

 

Meindýr og sjúkdómar

Reyniáta (Cytospora rubescens) er sveppasjúkdómur er herjar á reyni um allt land en þó meira áberandi nærri ströndinni. Einkennin eru þau að börkur á greinum og stofni dökknar og fellur inn og síðar myndast í honum flöskulaga gróhirslur, sem þó eru huldar berkinum að mestu. Gróin spýtast út í rauðum massa. Átan er yfirleitt fylgifiskur þess að ilmreynirinn er farinn að eldast, stendur of þétt eða hefur orðið fyrir skemmdum sem átan settist í. Til að hindra framgang reyniátunnar þarf að gæta þess að ilmreynirinn standi ekki þétt, koma í veg fyrir hnask á berki trjánna og varast að klippa greinar á haustin þegar flest sveppagró eru í loftinu.

Greining

Ilmreynir er með stór, stakfjöðruð blöð sem samanstanda af minni sagtenntum smáblöðum.
Fáar trjátegundir bera slík blöð hérlendis, fyrir utan reyniættina. Ilmreynir blómstrar í júní, hvítum fallegum blómsveipum sem verða að rauðum kúlulaga berjum.

 

Annað áhugavert

Reyniber má nota til sultu- og snafsgerðar. Mikilvægt er að berin séu búin að frjósa áður en þau eru tínd, því þá minnkar í þeim beiskjan. Viður ilmreynis er ljósbrúnn, allharður og með fallegri áferð. Þykir hann sérlega hentugur til ýmis konar smíða og handverks.

Hinn frægi Sandfellsreynir

Hinn frægi Sandfellsreynir

Ljósmynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir

Litróf

Litróf

Ljósmynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir

Ilmreynir við Ferstiklu, Hvalfirði

Ilmreynir við Ferstiklu, Hvalfirði

Haustlitir

Haustlitir

Ljósmynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir

Blóm ilmreynis

Blóm ilmreynis

Ljósmynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir

Ungur llmreynir

Ungur llmreynir

Ljósmyndari: Ragnhildur Freysteinsdóttir

Blóm og blöð ilmreynis

Blóm og blöð ilmreynis

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

Blómaskrúð

Blómaskrúð

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

Blóm og blöð að springa út að vori

Blóm og blöð að springa út að vori

Ljósmynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir

Reyniber

Reyniber

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

Reyniber eru mikilvæg fæða smáfugla

Reyniber eru mikilvæg fæða smáfugla

Ljósmynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir

bottom of page