Jarðarber
Jarðarber (Fragaria vesca) vaxa villt á Íslandi og mynda lítil og dísæt ber sem mörgum finnst bragðbetri en stóru berin sem keypt eru í búðinni. Á skjólsælum og hlýjum stöðum getur uppskeran verið með ágætum. En þau eru ekki aðeins vinsæl hjá mannfólkinu, því fuglar og geitungar kunna vel að meta bragðið og því þarf að hafa snöggar hendur um leið og þau þroskast.
Útlit
Lágvaxin (5-15 sm) jarðlæg jurt sem blómstrar hvítum blómum og myndar gómsæt rauð aldin við sumarlok. Blöðin eru þrífingruð og tennt. Jarðarber fjölga sér með fræjum en einnig kynlaust með jarðrenglum sem vaxa út frá stofnhvirfingunni. Renglurnar ræta sig og út frá þeim vaxa nýjar jarðarberjaplöntur.
Áður en aldin myndast getur útlit plöntunnar minnt á hrútaber, enda bygging og blöð afar svipuð. Einföld leið til þess að greina þar á milli er að líta á miðsmáblaðið, því ef það situr á stilk þá er um hrútaber að ræða. Að auki eru engir þyrnir á jarðarberjaplöntum, ólíkt hrútaberjum.
Blómgun
Útbreiðsla
Finnst víða um landið, þó fremur sjaldgæft. Algengast á Suður- og Suðvesturlandi .Vex nær eingöngu á láglendi.
Kjörlendi
Vex gjarnan í vel grónum brekkum er vísa móti suðri, þá bæði í grasbrekkum og kjarrlendi. Þolir vel hálfskugga, en þarf sólríkan stað til þess að þroska almennilega ber.
Annað áhugavert
Aldin jarðarberja er ekki í raun ber, samkvæmt grasafræðilegri skilgreiningu. Aldinið myndast þegar blómbotnin þrútnar út.
JarðaberjablómLjósmyndari: Jón Ásgeir Jónsson | JarðaberLjósmyndari: Jón Ásgeir Jónsson |
---|---|
Jarðaber - jarðrenglur greinilegarLjósmyndari: Jón Ásgeir Jónsson | JarðaberLjósmyndari: Jón Ásgeir Jónsson |