top of page

Kjarnaskógur

Fróðleikur

 

Upphaf skóg- og trjáræktar í Kjarnaskógi má rekja til 1946, þegar Skógræktarfélagið fékk þar land undir gróðrarstöð sína. Enn er starfrækt gróðrarstöð í skóginum en nú á vegum einkafyrirtækisins Sólskóga.

 

Við upphaf skógræktar í Kjarnalandi var þar skóglaust með öllu og landið var nýtt til beitar, slægna og kartöfluræktar. Árið 1952 var síðan hafist handa við friðun og skógrækt í Kjarnalandi, sem nú er hinn alkunni Kjarnaskógur. Félagið vann að ræktun Kjarnaskógar á eigin vegum allt til 1972 að Akureyrarbær tók við skóginum og gerði hann að útivistarsvæði Akureyringa í samstarfi við Skógræktarfélagið. Félagið annast allar framkvæmdir, skipulag og hirðingu svæðisins. Þetta samstarf hefur verið einkar farsælt og sem útivistarsvæði hefur Kjarnaskógur verið fyrirmynd annarra slíkra um allt land og heldur enn forystu á því sviði.

 

Margsinnis hafa girðingar um Kjarnaskóg verið færðar út. Unnið er að ræktun samfellds skógar frá gamla Kjarnaskógi í suðri allt norður að Glerá, ofan byggðarinnar og eins hátt í hlíðarnar og skilyrði leyfa. Alls eru nú innan girðinga útivistarsvæðisins um 800 ha lands.

 

Aðstaða til hvers konar útivistariðkunar í Kjarnaskógi er með ágætum. Leikvellir, trimmtæki, upplýst trimmbraut með skíðaspori á vetrum og svo mætti lengi telja. Gott kerfi göngustíga liðast um skóginn.

 

Trjágróður í Kjarnaskógi er afar fjölbreyttur og trjásýnistígur liggur um hjarta skógarins meðfram Brunná. Sífellt er unnið að fjölgun tegunda trjáa og runna í skóginum. 

Augljóst er að fólk kann vel að meta þetta framtak Skógræktarfélagsins og Akureyrarbæjar, því talið er að á annað hundrað þúsund manns heimsæki skóginn á hverju ári.

Ýtarlega er fjallað um Kjarnaskóg í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar sem kom út á 70 ára afmæli félagsins árið 2000 undir ritstjórn Bjarna E. Guðleifssonar náttúrufræðings.

 

 

 

 

 

bottom of page