top of page

Rauðgreni

Rauðgreni (Picea abies) er sígrænt, einstofna, formfagurt tré með fremur mjóa krónu. Rauðgreni myndar víðáttumikla skóga í Evrópu og er afar mikilvægt í bæði vistfræði-, menningar- og efnahagslegum skilningi fyrir álfuna. Tegundin getur vaxið hratt við góð skilyrði og vex allt til 70° norðlægrar breiddar í Noregi. Hæst vex rauðgreni í um 2.200 metra hæð í Alpafjöllunum.


Rauðgreni hefur verið ræktað víða hérlendis og var meðal fyrstu trjátegunda sem reyndar voru við upphaf íslenskrar skógræktar. Elstu rauðgreni á landinu í dag eru á Akureyri (gróðursett 1905) og Hallormsstað (gróðursett 1906). Rauðgreni frá Norður-Noregi var mikið gróðursett á Íslandi frá 1950 og fram yfir 1970 en minna síðan. Það vex fremur hægt hérlendis og þolir illa vindálag. Þar sem það stendur í skógarskjóli vex það þó prýðilega og hentar því best í blandað skógrækt og til yndisauka. 

 

 

Notkun

Rauðgreni er mikilvæg skógartegund hérlendis því hana er víða að finna í eldri þjóðskógum og skógarreitum þó dregið hafi úr gróðursetningu síðustu áratugina. Tegundin gerir meiri kröfur til jarðvegs en við getum yfirleitt boðið hérlendis og vegna lítils vind- og saltþols verður rauðgreni seint mikið notað í timburskógrækt á Íslandi.  Að því sögðu er tegundin frostþolin og greinaminni en t.d. sitkagreni, sem skilar sér í smærri kvistum og þar með meiri viðargæðum.  Því gæti verið að rauðgreni verði sums staðar notað í framtíðinni inn til landsins þar sem frosthætta er meiri. 

Rauðgreni hefur verið nefnt hið upprunalega jólatré því það var notað frá upphafi, er hefðin að færa sígrænt tré inn í húsakynni á vetrarsólstöðum tók að myndast í Norður-Evrópu. Ekki kemur því á óvart að í hugum okkar beri rauðgreni kosti snoturs jólatrés. Það hefur keilulaga krónu og fíngerða greinabyggingu sem gefur því þokkafullan blæ. Rauðgreni var lengi algengasta íslenska jólatréð í sölu, en stafafura hefur nú tekið við. Þó eru ávallt margir sem laðast að rauðgreninu og er það ræktað sérstaklega sem jólatré á nokkrum stöðum á landinu.

 
Ræktun

Rauðgreni er að mörgu leyti heppilegt greni í garða, því það er hægvaxnara og fíngerðara en sitkagreni, sem nú er mest notað. Hið lága salt- og vindþol er þó takmarkandi þáttur þar sem flestir bæir á Íslandi standa við sjávarsíðuna. En í velgrónum hverfum og skjólsælli svæðum ætti rauðgreni að vera prýðilegur kostur. Einnig er rauðgreni afar fallegt tré í útivistar- og sumarbústaðaskógrækt inn til landsins, því það bætir við nýjum litarafbrigðum og formi í umhverfið. Velja þarf því stað þar sem jarðvegur er nokkuð frjósamur, því í lyngmóa mun það gera lítið annað en að tóra.

Meindýr og sjúkdómar

Rauðgreni á Íslandi er yfirleitt laust við óværu. Helst eru það tveir sveppir, grenibarrfellisveppur (Rhizosphaera kalkhoffii) og greniryðsveppur (Chrysomyxa abietis) sem geta valdið skemmdum. Einkenni smits eru algular eða gulflekkóttar nálar, yfirleitt aðeins á hluta krónunnar. Afar sjaldgæft er að sveppirnir drepi trén, en þeir geta valdið útlitsgöllum og eru því mögulegt vandamál í jólatrjáaræktun.

Greining

Greinabygging rauðgrenis getur verið afar breytileg. Almennt eru þó greinarnar láréttar, uppsveigðar í endann og smágreinar verða oft slútandi með aldrinum. Nálarnar eru örlítið styttri og bera yfirleitt ljósgrænni lit en nálar á blágreni og sitkagreni. Liturinn á nálunum getur sveiflast mikið eftir umhverfisaðstæðum. Við kjöraðstæður eru nálarnar dökkgrænar, en í rýrum jarðvegi verða trén gulleit að sjá. Almennt séð gulna þó nálarnar á veturna að einhverju marki. Nálarnar stinga örlítið meira en á blágreni, en minna en á sitkagreni.

Rauðgreni í Patreksfirði

Rauðgreni í Patreksfirði

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Rauðgreni í Laugalandsskógi

Rauðgreni í Laugalandsskógi

Ljósmynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir

Drúpandi hliðargreinar - Hallormstað

Drúpandi hliðargreinar - Hallormstað

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Ungt rauðgreni

Ungt rauðgreni

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

Vöxtur að hefjast

Vöxtur að hefjast

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

Vöxtur að hefjast

Vöxtur að hefjast

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

bottom of page