top of page

Rússalerki

Rússa-/síberíulerki (Larix sibirica) er einstofna tré með grannri, keilulaga krónu. Elstu eintök lerkis sem vitað er um á Íslandi eru í Mörkinni í Hallormsstað, sáð um 1904. Hefð er fyrir því að kalla síberíulerki sem vex vestan Úralfjalla rússalerki (Larix sukaczewii) þó um sömu tegund sé að ræða. Nær allt lerki sem gróðursett var hérlendis framan af síðustu öld var síberíulerki, en rússalerki tók svo alveg við um og eftir 1980. Rússalerki er betur aðlagað úthafsloftslagi líkt og ríkir hérlendis og verður yfirleitt fyrir minni frostskemmdum og því betur í stakk búið að verjast sjúkdómum. Rússalerki er nú eitt algengasta tréð í skógrækt á Íslandi og hefur náð yfir 23 metra hæð í Hallormstaðaskógi.

Notkun

Rússa-/síberíulerki þolir að vaxa í afar rýrum jarðvegi og getur vaxið þar hratt. Því getur tegundin þjónað sem landgræðslutegund og timburframleiðandi í senn. Kvæmi sem kala ítrekað nýtast þó aðallega sem iðnviður eða sem skjól fyrir næstu kynslóð plantna.

Í dag er nær eingöngu plantað betur aðlöguðum kvæmum af rússalerki líkt og 'Raivola', sem myndar hærra hlutfall af beinvöxnum, myndarlegum bolum. Lerki myndar fallegan dökkan kjarnvið og er viðurinn eftirsóttur til smíða, sem gólfefni og í burðarvirki. Lerkiviður er einnig vinsæll í girðingarstaura og annað sem þarf að standast veður og vind því viðurinn hefur náttúrulega fúavörn.

Blendingur af evrópulerki og rússalerki er ber nafnið 'Hrymur' hefur verið þróaður hjá Skógræktinni og lofar afar góðu. Hann vex hraðar en rússalerki og kelur síður.


Ræktun

Vegna uppruna síns þrífst rússa-/síberíulerki best í stöðugu loftslagi, þar sem skil milli árstíða eru skörp og sumur hlý og þurr og vetur kaldir. Fáir staðir á Íslandi bjóða upp á slík skilyrði en þó kemst loftslag Norðan- og Austanlands næst því og eru þrif þar almennt best. 

Rússa-/síberíulerki nálast snemma og er hætt við vorkali, sérstaklega sunnan- og vestanlands. Kalið gerir trén veikari fyrir árásum sjúkdóma og annarri óværu.  
Rússa-/síberíulerki er heppilegt garðtré ef það fær svolítið rými.

 

Meindýr og sjúkdómar

Á rússa-/síberíulerki herja fá skordýr hérlendis en hinsvegar þrjár sveppategundir; lerkiáta (Lachnellula willkommii), barrviðaráta (Phacidium coniferarum) og lerkibarrfellisveppur (Meria laricis). Vel aðlöguð kvæmi verða oftast ekki fyrir miklum áhrifum af þessum sveppum. En kvæmi síberíulerkis sem kala reglulega eru viðkvæm. Sveppirnir geta drepið tré, sérstaklega í köldum blautum sumrum.  

 

Greining

Lerki er eina barrtréð hérlendis sem fellir allar nálarnar á haustin. Haustlitir eru gulir, en á sumrin eru nálarnar ljósgrænar, sitja margar saman í vöndli og eru mjúkar viðkomu. Börkurinn verður vogskorinn með aldrinum.

 

Annað áhugavert

Formæður þess rússalerkis sem við gróðursetjum nú mest af (Raivola) var gróðursett að skipun Péturs mikla Rússakeisara til að framleiða skipsmöstur.

Börkurinn verður grófur með aldrinum

Börkurinn verður grófur með aldrinum

Mynd: Jón Ásgeir Jónsson

Gisinn ungskógur

Gisinn ungskógur

Mynd: Jón Ásgeir Jónsson

Lerki á Fáskrúðsfirði

Lerki á Fáskrúðsfirði

Mynd: Jón Ásgeir Jónsson

Lerkikönglar

Lerkikönglar

Ljósmynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir

Lerki á Fáskrúðsfirði.

Lerki á Fáskrúðsfirði.

Mynd: Jón Ásgeir Jónsson

Lerkiskógarbotn

Lerkiskógarbotn

Mynd: Jón Ásgeir Jónsson

Lerkinála að springa út að vori

Lerkinála að springa út að vori

Mynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir

Nálavöndlar

Nálavöndlar

Ljósmynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir

Góður vöxtur í snauðu landi

Góður vöxtur í snauðu landi

Mynd: Jón Ásgeir Jónsson

Lerkiskógarbotn

Lerkiskógarbotn

Ljósmynd: Jón Ásgeir Jónsson

Ungir lerki könglar bíða frjóvgunar

Ungir lerki könglar bíða frjóvgunar

Ljósmynd: Jón Geir Pétursson

bottom of page