top of page

Skarðsdalur

Fróðleikur

 

 

Um skóginn í Skarðdal

 

Skógurinn í Skarðdal er nyrsti plantaði skógur á Íslandi. Upphaf hans má rekja til þess að árið 1950 fékk Skógræktarfélag Siglufjarðar suðurhluta Skarðdalslands frá Siglufjarðarbæ, um 5,5 hektara svæði. Í Skarðdalslandi hafði Skagfirðingafélagið (átthagafélag) hafið gróðursetningu og hélt áfram að gróðursetja í það land ásamt skógræktarfélaginu. Svæðið var girt á árunum 1950-1951 og fyrstu plönturnar gróðursettar 1951. Fram til 1980 voru rúmlega 100 þúsund trjáplöntur gróðursettar í þetta svæði – mest sitkagreni, því næst blágreni, birki og rauðgreni, en einnig hvítgreni og þrjár gerðir furu – fjallafura, skógarfura og stafafura, mest stafafura. Einnig var sett niður lerki, reynir, ösp og víðitegundir.

 

Á ári trésins árið 1980 fékk félagið viðbótarland norðan eldra svæðis, um 1,5 hektara og hafa á annan tug þúsunda plantna verið gróðursettar þar, mest sitkagreni, blágreni og birki. Síðasta hluta Skarðdalssvæðis neðan heimreiðar fékk svo félagið frá Siglufjarðarbæ árið 1990 og voru fyrstu plönturnar gróðursettar þar 1993. Sótt var síðar um stækkun til suðurs frá Skarðdalssvæði, inn í Leyningsland og fékkst vilyrði fyrir því árið 1997. Árið 2006 var svo gerður samningur um Landgræðsluskóga í Leyningslandi, alls rúmlega 34 hektara. Þar hafa verið settar niður 50-60 þúsund plöntur.

 

Mestan hluta þeirra plantna sem gróðursettar hafa verið í skóginum hafa siglfirskir unglingar annast, lengst af undir stjórn og umsjón Jóhanns Þorvaldssonar, fyrrverandi formanns skógræktarfélagsins, en hann skilaði rúmlega 40 ára starfi í skóginum. Árið 2006 var reistur minningarskjöldur um Jóhann, með áletruninni „Að gefast upp kom aldrei til greina“ og er það tilvitnun í hann en fyrstu ár skógræktarinnar kröfðust einstakrar þrautseigju – flestir að vinna við síldarverkun, ekkert athvarf í skóginum og ágangur sauðfjár töluverður. Í upphafi var vinna unglinganna alger sjálfboðavinna, en þegar á leið gat skógræktarfélagið greitt sínu unga starfsliði nokkra þóknun. Félagið hefur einnig notið liðsinnis bæjarfélagsins,

sem hefur borgað laun flokkstjóra og unglinga sem vinna í skógræktinni.

 

Einnig hafa ýmis hópar komið að gróðursetningu og vinnu hér og þar á svæðinu, meðal annars frá sjálfboðaliðasamtökunum Veraldarvinum og Seeds, en félaginu hefði ekki tekist að gróðursetja þann fjölda planta sem settur hefur verið í Leyningsland ef sjálfboðaliðanna hefði ekki notið við.

 

Lengi vel var Skarðdalssvæðið lítið þekkt og lítið notað vegna erfiðrar aðgöngu – skógurinn þéttur og lítið grisjað. Árið 1989 urðu þáttaskil er þetta snertir, er komu þrír ungir menn frá Skógræktarfélagi Íslands og grisjuðu, meðal annars fyrir fyrsta áfanga stígagerðar. Á næstu árum hófst vegagerð inn á svæðið og í framhaldi af henni stígagerð, sem unnið hefur verið að síðan, en nú er komið gott kerfi göngustíga um skóginn, auk annarrar aðstöðu. Mikið hefur verið grisjað í elsta hluta skógarins, í kringum Skarðdalskot.

 

Árið 2009 var gerður vegslóði upp í rjóðrið við Leyningsá, með tilstyrk Vegagerðarinnar. Styrkir til uppbyggingar og ýmsar gjafir, svo sem skógarhúsið og bekkir, hafa einnig komið frá hinum ýmsu aðilum – umhverfisráðuneytinu, Landgræðslusjóði, Pokasjóði, Vildarvinum Siglufjarðar og Lionsklúbbi Siglufjarðar.

 

Skógræktarfélag Siglufjarðar

 

Félagið var stofnað þann 6. október 1940. Upphaflega fékk félagið úthlutað landi austanvert í Hólsdalnum sunnan Hóls og hóf þar gróðursetningu, en það reyndist of erfitt land og flutti félagið sig því yfir í Skarðdal, sem hefur verið aðal skógræktarsvæði félagsins síðan. Félagið stendur fyrir ýmsum viðburðum, meðal annars skógardegi á sumri og jólatrjáasölu í desember, þegar fært er í skóginn!

bottom of page