Stálpastaðaskógur
-Upplýsingar
Ábyrgðaraðili: Skógræktin
Almennt um skóginn
Um þennan vinsæla, hlíðótta skóg liggja göngustígar með um þrjátíu merktum trjátegundum frá sjötíu stöðum á jörðinni. Áningarborð eru á nokkrum stöðum.
Staðsetning og aðgengi
Stálpastaðaskógur er í norðanverðum Skorradal, svo til fyrir miðju Skorradalsvatns.
Aðstaða og afþreying
Í Stálpastaðaskógi er trjásafn með um þrjátíu merktum trjátegundum frá sjötíu stöðum á jörðinni. Margar fallegar gönguleiðir er að finna í skóginum og áningarborð eru á nokkrum stöðum.
Saga jarðarinnar
Stálpastaðaskógur er á samnefndri 345 ha eyðijörð í Skorradal. Hún hefur verið í eigu Skógræktar ríkisins frá 1951 þegar Haukur Thors og kona hans ánöfnuðu Skógræktinni landið og var skógurinn þá friðaður. Árið 1971 var reist minnismerki um gjöf þeirra. Minnismerkið stendur miðsvæðis á Stálpastöðum, rétt við þjóðveginn. Sagt er að jörðin hafi aldrei hentað vel undir hefðbundinn búskap, þar sem hún er meira og minna ein brekka, en öðru máli gegnir um skógræktina.
Trjárækt í skóginum
Jörðin var fyrrum kjarri vaxin en mikið hefur verið gróðursett á henni
Ljósmyndari: Ester Ösp Gunnarsdóttir
Ljósmyndari: Ester Ösp Gunnarsdóttir
frá sjötta áratug síðustu aldar. Byrjað var á því að grisja kjarrið sem fyrir var í landinu og gróðursetja í það, stærstu hríslurnar voru látnar standa og mynduðu þær skjól fyrir nýju plönturnar. Frá árinu 1952 hafa verið gróðursettar á Stálpastöðum rúmlega 600.000 plöntur af nær 30 tegundum frá 70 stöðum úr veröldinni á rúmlega 100 ha lands. Nokkrir einstaklingar hafa í gegnum tíðina gefið fé til uppbyggingar á Stálpastöðum. Hafa þessar gjafir oft skipt miklu um framkvæmdagetu Skógræktarinnar. Árið 1952 gáfu hjónin Ingibjörg og Þorsteinn Kjarval peningaupphæð sem varið var til gróðursetningar. Um 1955 gaf Ludvig G. Braathen, stórútgerðarmaður í Osló, í nokkur ár Skógræktinni fé sem notað var til gróðursetningar. Einnig má nefna gjöf sem nemendur Bændaskólans á Hvanneyri gáfu til minningar um skólastjóra sinn, Halldór Vilhjálmsson. Þau svæði sem að gróðursett hefur verið í fyrir þessar gjafir hafa verið nefnd eftir gefendunum. Á Stálpastöðum má því í dag finna Kjarvalslund, Braathenslund og Halldórslund. Þá hafa stórfyrirtæki styrkt einstaka verkþætti, ýmist með peninga- eða vinnuframlagi.
Nú eru a.m.k. 30 trjátegundir á jörðinni, að mestu rauðgreni og sitkagreni. Úr skóginu koma mörg stærstu jólatorgtré landsins. Áhersla var frá upphafi á að gróðursetja sitkagreni og er nú á Stálpastöðum mesti skógur þeirrar tegundar á landinu, þótt á s.l. tíu árum hafi sitkagreni verið gróðursett í stærri svæði annars staðar. Stálpastaðaskógur er fyrst og fremst dæmigerður timburskógur og hefur mikið fræðslugildi um ýmis atriði varðandi timburframleiðslu úr sitkagreni hér á landi.
Annað áhugavert
Stálpastaðaskógur er og verður mikilvægur vettvangur rannsókna og fræðslu. Tengist það ekki síst nálægð hans við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, þar sem skógfræði er kennd. Má þar nefna rannsóknaverkefnið Skógvist sem gengur út á að skilgreina áhrif nýskógræktar á vistkerfi.
Í Skorradalsvatni má veiða bæði urriða og bleikju.
Fengið með leyfi frá: www.skogur.is