top of page

Fróðleikur
 

Lýsing


Tröðin er rétt sunnan við þjóðveginn um Hellissand og þar er nú fyrirmyndar aðstaða til þess að slaka á og njóta fagurs útsýnis, þar sem Snæfellsjökull trónir dulráður í suðri. Í Tröðinni er forláta steingrill, borð og bekkir og trjátegundamerkingar. Þá eru þar ágætir stígar, tilvaldir til léttra gönguferða.

 

Skógrækt


Tröð er gamall skógarlundur, í sérkennilegu og heillandi umhverfi með lítt skráða sögu. Þarna ræktaði Kristjón Jónsson tré við erfiðar aðstæður. Minningarskjöldur um Kristján er í lundinum. Þann 15. júlí 2006 var Tröð vígð formlega sem Opinn skógur er Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra gróðursetti fallega hlynplöntu.

Grétar, sonur Kristjóns, þekkir seinni tíma sögu Traðarinnar ágætlega. Hér á eftir fara nokkur sögubrot og örnefni höfð eftir honum.

 

Kristjón Jónsson bjó á bæ sínum Gilsbakka, sem nú er horfinn, en var skammt norðan lundarins við núverandi þjóðveg. Kristjón var ættaður úr Breiðafjarðareyjum. Kristjón keypti Gilsbakka og Tröðina um 1920. Hann nýtti Tröðina til heyja fram til 1950 og gaf hún af sér sem svaraði 1 kýrfóðri á ári. Kristjón varð að skera fé sitt í kjölfar mæðuveikifaraldurs um 1950. Hætti hann þá með kindur og hóf trjárækt í Tröðinni. Fyrstu trén munu þó gróðursett um 1920. Voru það tvö reyniviðartré sem lengi stóðu. Kristjón mun hafa verið afar natinn og áhugasamur í trjáræktinni.

Lundurinn er í stórri kvos innan sérkennilegra grjóthlaðinna garða sem eiga sér eldri sögu sem gaman væri að kanna. Bakkana (brystin) umhverfis kvosina kallaði Kristjón „Börðin“. Trjágróðurinn er mestur í brekkunum niður af „Börðunum“, einkum að austanverðu. Í miðju lundarins, niður af börðunum, eru stórar, tiltölulega sléttar grasflatir, sem kallast einfaldlega „Flatirnar“. Þær hækka nokkuð til suðurs og trjágróðurinn brýtur þær upp á stöku stað.

Stapi heitir lítill hóll á vinstri hönd, þegar komið er inn fyrir hliðið. Stekkur fyrir ærnar var undir Stapanum að sunnanverðu. Lítið eitt sunnar er trjáþyrpingin „Lundur“ og þar suður af lítill hóll er nefnist „Hestur“ og var vinsæll til leikja hjá börnum. Austan Hests, ofan „Barða“, eru tóftir, hrundar grjóthleðslur, minjar hesthúss Kristjóns. Syðst í Tröð er síðan „Margrétarlundur“ sem er nefndur svo til heiðurs systur Kristjóns. Að vestanverðu er sérkennilegur klettur, nefndur „Kleinuklettur“.

 

Utan hliðs, á hægri hönd er gengið er inn að Tröð, er stór klofinn steinn er Kristjón kallaði „Kirkjuna“. Grétar kann skemmtilega sögu af „Kirkjunni“: Vörubílstjóri á Hellissandi, sem Guðmundur hét, þótti nokkuð seinheppinn og var stundum nefndur Gvendur „slysi“ í daglegu tali. Hann mun einhverju sinni hafa farið og lyft „Kirkjunni“ með bílkrananum á pallinn á vörubílnum og flutt á lóðina hjá sér til prýði. Svo „slysalega“ vildi til að „Kirkjan“ brotnaði í tvennt í átökunum. Kristjón var mikill rólegheitamaður í öllum háttum. Hann mun hafa horft á aðfarirnar. Fer hann nú til Guðmundar, sem stendur úti á lóðinni og segir: „Þú ert búinn að fá þér stein, Gvendur minn?“ Guðmundur svarar að bragði: „Finnst þér þetta ekki flottur steinn?“. Þá segir Kristjón: „Ertu nú ekki búinn að slasa þig nóg, Gvendur minn?“. Ekki leið á löngu þar til Guðmundur „slysi“ hafði fært „Kirkjuna“ í sitt gamla far.

Að sögn Grétars mun Kristjón faðir hans hafa alist upp við gamla þjóðtrú, þar sem trúin á álfa, huldufólk, sjóskrímsli og fjörulalla þótti sjálfsögð. Kristjón sagði að „Stapinn“ væri fullur af huldufólki, þar væri raunar höfðingjasetur. Þá taldi hann sig stundum sjá ljós í „Kirkjunni“.

 

Skógræktar- og landverndarfélagið undir Jökli


Tröðin er í umsjá Skógræktar- og landverndarfélagsins undir Jökli, sem stofnað var árið 1990.

 

bottom of page