top of page

Tunguskógur

Fróðleikur

 

Tunguskógur er í alfaraleið og tilvalinn útivistar- og áningarstaður. 
Í skóginum eru góðir göngustígar og rjóður með bekkjum og borðum. Löngum hefur verið vinsælt að fara „inn í skóg“ á sumrin í gönguferðir, berja- og sveppatínslu.
 

Lýsing


Tunguskógur vex í Tungudal sem er vestastur þriggja dala er ganga inn af Skutulsfirði, þar sem Ísafjarðarbær stendur. Í skjólgóðum dalnum er mikil veðursæld og ber gróðurinn þess glöggt merki. Í Tungudal eru sumarhús, tjaldsvæði, golfvöllur, skíðasvæði og stutt í fjölbreytta þjónustu sem Ísafjarðarbær býður upp á. Bærinn Tunga, sem talin er landnámsjörð, stendur í mynni dalsins.
 
Skógrækt


Í Tunguskógi er náttúrulegur birkiskógur og gróðursettur skógur. Gróðursetning hófst í Tunguskógi árið 1950. Mest var plantað innan Bunár árin 1955-1965, en síðar út með hlíðinni ofan sumarhúsabyggðarinnar. Landið er að hluta til bratt og grýtt og hefur verið erfitt til ræktunar. Trjágróðurinn hefur hins vegar náð góðum þroska í hlíðum dalsins og er nú einn vöxtulegasti skógur Vestfjarða. Sérstaklega hefur sitkagreni og hvítsitkagreni vaxið vel, en einnig eru teigar með stafafuru, rússalerki og rauðgreni í skóginum. Byrjað var að grisja skóginn um 1980 og hefur því verið haldið áfram síðan.
 
Saga Simsonsgarðsins og Gömlu gróðrarstöðvarinnar í Tungudal


Martinus og Gerda Simson fengu lóð inni í Tungudal árið 1926 til þess að byggja sér sumarhús og stunda garðrækt. Staðinn kölluðu þau Kornustaði og gerðu þar annálaðan unaðsreit með styttum, gosbrunnum, gullfiskum, manngerðum helli, sundlaug og fjölbreyttum gróðri. Árið 1994 féll snjóflóð í Tungudal sem olli miklum skemmdum. Brotnuðu þá flest trén í garðinum. Strax var hafist handa við endurgerð garðsins og með tímanum mun hann væntanlega ná aftur fyrri glæsileika.

Eftir lát Simsons árið 1974 ánafnaði hann Skógræktarfélagi Ísafjarðar garðinum, sem hefur annast hann síðan.
 
Skógræktarfélag Ísafjarðar


Félagið var stofnað á nýársdag árið 1945 af áhugafólki um verndun skógarleifa og ræktun nýrra skóga og hefur félagið unnið að því óslitið síðan.

 

bottom of page