top of page

Vaðlaskógur

Fróðleikur
 

 

Árið 1936 var gerður samningur við eigendur fjögurra jarða gegnt Akureyri um skógrækt þar sem nú er Vaðlaskógur. Með samningnum var brotið í blað í sögu skógræktar í Eyjafirði og jafnvel á landinu öllu. Aldrei hafði verið stofnað til skógræktar á jafn stóru skóg-, eða kjarrlausu landi fyrr og sáralítil reynsla af ræktun skóga á bersvæði.

Þetta merka framtak lýsir vel þeim eldmóði og trú á framtíðina sem einkenndi störf frumherjanna í eyfirskri skógrækt. Ekki er síður athyglisvert að virða fyrir sér árangurinn af þessu starfi því þarna höfðu menn þrek og úthald til að vinna verkið til enda og klæða tæplega 50 ha lands skógi við erfiðar aðstæður. Mikill fjöldi sjálfboðaliða lagði hönd á plóginn við gróðursetningar fyrstu áratugina.

Upphaflegt markmið félagsins með skógrækt á þessum stað var að „flytja Vaglaskóg vestur yfir Vaðlaheiði". Með öðrum orðum átti þetta að gefa Eyfirðingum kost á að komast í skóglendi án þess að þurfa að leggja á sig ferðalag austur í Fnjóskadal eða alla leið inn í Leyningshóla. Segja má að á allra síðustu árum hafi þetta markmið verið að nást, þó að Kjarnaskógur hafi orðið að helsta vettvangi til skógarferða í firðinum.

Með opnun Leiruvegar gegnum Vaðlaskóg seint á 9. áratugnum gjörbreyttist aðgengi að skóginum og síðan hefur Skógræktarfélagið unnið markvisst að því að gera skóginn aðgengilegri til útivistar fyrir almenning. Eftir endilöngum skóginum ofan vegar liggur göngustígur með skemmtilegum áningarstöðum. Tilvalið er að hefja gönguferð um skóginn á bílastæðinu við þjóðveginn, syðst í skóginum.

Fyrir áhugafólk um trjá- og skógrækt er Vaðlaskógur mikil fróðleiksnáma því þar má lesa ræktunarsögu íslenskrar skógræktar frá æskudögum hennar til þessa dags. Margt er þar athyglisvert að sjá og víða er fallegt í skóginum.

Vaðlaskógur er einnig sérstæður að því leyti að þar vex ræktaður skógur allt niður að fjöruborði sjávar, en slíkt er síður en svo algengt á Íslandi.

Heildargróðursetning í Vaðlaskóg er rúmlega 235.000 plöntur, langmest á árunum 1937-65.

 

 

 

 

 

bottom of page