top of page

Elliðaárdalur

Ábyrgðaraðili: Reykjavíkurborg

Vífilsstaðavatn & nágrenni

Fróðleikur

 

 

Smalaholt


Um 53 ha að stærð úr landi Vífilsstaða, vestan og sunnan í Smalaholti, norðan við Vífilsstaðavatn. Smalaholt er fyrsta svæðið sem fékkst til skógræktar í Garðabæ og var forsenda þess að skógræktarfélag var stofnað árið 1988.  Skógræktarsvæðið blasir við frá byggðinni í austur. Svæðið er fullplantað, en íbætur hafa verið stundaðar þar undanfarin ár. Þar hafa félagasamtök og grunnskólar í Garðabæ ræktunarreiti, um 1 ha að stærð hver. Félagasamtök hafa sett merkingar við reiti sína og sumir sett upp útiborð til áningar. Umhirð hefur falist í áburðargjöf og heftingu útbreiðslu lúpínu sem breiðst hefur um hlíðar holtsins.

 

Félagið hefur lagt þjónustuvegi um svæðið og bílastæði sem mikið er notað af útivistarfólki. Við aðkomuna er grænt landgræðsluskógaskilti og fræðsluskilti um gróður og fugla svæðisins. Um svæðið liggja reiðstígar frá Kjóavöllum og ofan GKG að Hnoðraholti. Einnig liggur um Smalaholt háspennulína, Hnoðraholtslína, með spennivirki og tilheyrandi stauravirkjum.


Í tilefni tuttugu ára afmælis félagsins 2008 voru skipulagðir útivistarstígar og áningarstaðir af Hornsteinum ehf. Uppbygging útivistarstíga á svæðinu hófst sumarið 2009, er félagið tók þátt í samstarfi um Atvinnuátak Skógræktarfélags Íslands og Garðabæjar um verkefni á skógræktarsvæðunum. Fyrsti áfangi var lagður eftir brún holtsins en þaðan er gott útsýni.


Fundist hefur lágmynd af stúlku meitluð í klöpp uppi á Smalaholti, utan umsjónarsvæðis skógræktarfélagsins, inni á eignarlandi áður Póst og síma. Nýbyggð í Kópavogi liggur mjög nærri lágmyndinni. Kópavogsbær hefur sneitt úr norðanverðu skógræktarsvæðinu með vegalagningu í íbúðarbyggð norðan í Smalaholti, svo íbúðarbyggð umliggur Smalaholtið á tvo vegu.

Sandahlíð

Um 46 ha að stærð úr landi Vífilsstaða. Staðsetning austan við

Vífilsstaðavatn og liggur sunnan við Kjóavelli. Aðkoma er frá Elliðavatnsvegi og þar er grænt landgræðsluskógaskilti. Skógræktarskipulag af Sandahlíð var gert 1993 af Arnóri Snorrasyni skógfræðingi. Svæðið er nær fullplantað. Áburðargjöf á trjáplöntur og önnur umhirða. Félagið útbjó áningarstað á Sandaflöt 1995 samkvæmt tillögu Þráins Haukssonar landlagsarkitekts með grilli og nokkrum útiborðum. Góð aðstaða er á flötinni, leiktæki hlaupaköttur, rólur og sandkassi. Félagið lagði veg inn á svæðið og stórt bílaplan. Útivistarstígar eru frá bílastæði í vestur að mörkum svæðisins í átt að Vífilsstaðavatni og austur að mörkum Kópavogs. Sandahlíð býður uppá útivist til leikja og í næði frá umferð. Fuglalíf þar fjölbreytt.

Skógræktarfélag Garðabæjar

 

Skógræktarfélag Garðabæjar var stofnað 24. okt. 1988, af um 50 áhugasömum Garðbæingum um ræktun og útivist. Félagið er eitt aðildarfélaga í Skógræktarfélagi Íslands. Ólafur Vilhjálmsson, frá Bólstað, þáverandi formaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Garðabæjar og Erla Bil Bjarnardóttir garðyrkjustjóri unnu að því að útvega landsvæði fyrir skógrækt í Garðabæ, en það var forsenda fyrir stofnun félagsins. 

Þrátt fyrir að Skógræktarfélag Garðabæjar sé ungt að árum, hefur félagsstarf þess verið öflugt, enda félag fyrir alla fjölskylduna, með yfir þrjú hundruð félaga.

Félagið var í fararbroddi er átak um Landgræðsluskóga hófst í Smalaholti 10. maí 1990 með þátttöku frú Vígdísar Finnbogadóttur forseta, þingmanna, bæjarfulltrúa og fjölda fólks. Átakið var svo öflugt þetta sumar að um 70 þúsund trjáplöntur voru gróðursettar eða um 10 plöntur á hvern Garðabæing þá. Árin áður var búið að úthluta flestum frjálsum félagasamtökum, grunnskólunum og nokkrum fjölskyldum ræktunarreitum í Smalaholti. Landgræðsluskógaverkefnið stendur enn.

Félagsstarf er öflugt, einn til tveir fundir að vetri með fræðslu um skógrækt, útivist og ferðalög. Haustferð félagsins, sem hefur verið helgardagsferð, er mjög vinsæl þar sem skoðaður er árangur ræktunar hjá öðrum.

Sjálfboðastarfi hefur verið haldið í gangi frá stofnun félagsins, með vinnu- og samverukvöldum á svæðunum á þriðjudagskvöldum í maí og júní. Einnig hefur einstaklingur unnið í mörg sumur við umhirðu á svæðunum. Félagið hefur síðustu ár einnig selt jólatré í litlu mæli úr ræktun sinni, sem er liður í félagsstarfi í desember. Með árunum hefur umsjónarsvæðunum fjölgað og umhirðan við áburðargjöf og annað orðin það viðamikil að nauðsyn er á að félagið ráði starfsfólk.

Umsjónarsvæði félagsins eru nú á Smalaholti, Hnoðraholti, Sandahlíð, Hádegisholti, Tjarnholtum, Leirdal og í Brynjudal.

bottom of page