Bláber
Á Íslandi vaxa tvær tegundir af bláberjum sem eru með fyrstu jurtategundum sem íslenskt barn lærir að þekkja og nýta sér. Með aukinni beitarfriðun hafa berjalönd landsmanna stóraukist og berjaspretta í skógum er víða með ágætum.
> Bláberjalyng (Vaccinium uliginosum)
> Aðalbláberjalyng (Vaccinium myrtillus)
Bláberjalyng (Vaccinium uliginosum)
Útlit
Lágvaxið lyng (8-15 sm) með ávölum, heilrendum blágrænum blöðum og bleikum, bjöllulaga, drjúpandi blómum. Stöngullinn er viðarkenndur, sívalur og brúnn að lit. Að hausti myndar lyngið heiðblá ber.
Líkist mjög aðalbláberjalyngi, en blöðin á því eru tennt og ljósgrænni.
Blómgun
Útbreiðsla
Finnst um allt land og allt upp í 900 metra hæð. Sums staðar mjög algeng.
Kjörlendi
Vex best í hlíðum, bollum og skóglendi. Í skógi er það yfirleitt að finna í rjóðrum eða hálfopnum skógi.
Annað áhugavert
Tegundin var notuð til litunar áður fyrr en nýsoðin berin gáfu rauðan lit og blöðin gulan. Íslendingar eru mjög duglegir við að nýta sér plöntuna og fara í berjamó að hausti enda fátt betra en bláberjaskyr með rjóma.
Aðalbláber (Vaccinium myrtillus)
Útlit
Lágvaxið lyng (10-20 sm) með tenntum, ljósgrænum blöðum og smávöxnum bjöllulaga, drjúpandi blómum. Stöngullinn er grænn, hvassstrendur og jarðlægur með uppsveigðum greinum.
Að hausti myndar lyngið bragðgóð dökkblá eða nær kolsvört ber.
Blómgun
Útbreiðsla
Finnst um land allt nema er sjaldgæft á Suðurlandi milli Ölfusar og Skeiðarár. Tegundin þarf helst vetrarskýlingu og reiðir sig á snjóalög eða skóg til þess að hlífa sér. Er því algeng á snjóþungum svæðum líkt og á Vestfjörðum, í útsveitum á Norðurlandi og Austurlandi. Á snjóléttari svæðum, líkt og á Suðvesturlandi og Vesturlandi, takmarkast það oft við dældir, bolla eða skóglendi og þá iðulega ofar í hlíðum en annars staðar. Hæsti fundarstaðurinn er í 880 metra hæð á Barkárdalsbrúnum.
Útbreiðslan hefur aukist til muna síðustu áratugi innan skóga landsins. Þróunin virðist vera sú að áður fyrr vissu menn um aðalbláberjalyng á ákveðnum takmörkuðum blettum í skóginum en nú er það orðið áberandi mjög víða. Brynjudalsskógur í botni Hvalfjarðar er gott dæmi um skóg þar sem þessi þróun hefur átt sér stað.
Kjörlendi
Vetrarskýling er takmarkandi fyrir tegundina og vex hún best þar sem snjór eða hærri gróður skýlir henni. Hún er kröfuharðari á jarðveg en bláberjalyng og erlendis er tegundin þekkt sem undirgróður í barrskógum og við sjáum svipað mynstur í okkar skógum.
Annað áhugavert
Aðalbláberjalyng á það til að mynda nær alveg svört ber og eru þau kölluð aðalber. Margir telja svarta afbrigðið bragðbetra.
Bláberjalyng með þroskuðum berjumLjósmyndari: Ragnhildur Freysteinsdóttir | Sætukoppar á aðalbláberiLjósmyndari: Ragnhildur Freysteinsdóttir |
---|---|
AðalbláberalyngsbreiðaLjósmyndari: Ragnhildur Freysteinsdóttir | Þroskuð aðalbláberLjósmyndari: Jón Ásgeir Jónsson |