Elftingar
Elftingar eru frumstæður hópur plantna sem tilheyrir byrkningum, ásamt burknum og jöfnum. Talið er að byrkningar hafi verið fyrstu plönturnar til að mynda skóga á jörðinni fyrir rúmum 300 milljónum ára, sem urðu allt að 40 metra háir. Þegar loftslag kólnaði endaði gullöld byrkninganna og annar plöntuhópur tók við, fræplöntur (berfrævingar og síðar dulfrævingar). Í dag samanstanda skógar heimsins aðeins af fræplöntum, en byrkningarnir eru þó enn áberandi víða í skógarbotninum.
Á Íslandi vaxa sjö tegundir af elftingum. Tvær þeirra, mýrelfting (Equisetum palustre L.) og fergin (Equisetum fluviatile), eru bundnar við votlendi og mýrar. Hér verður fjallað um þær fimm tegundir sem finna má í skógi.
Klóelfting – Equisetum arvense Vallelfting – Equisetum pratense
Skógelfting – Equisetum sylvaticum Eski – Equisetum hyemale
Beitieski – Equisetum variegatum
Klóelfting – Equisetum arvense
Útlit
Greinótt, 5-40 sm há elfting. Hefur gáróttan stöngul með fíntenntu slíðri við hvern lið sem samanstendur af 10-12 svörtum tönnum. Við hvern lið eru uppsveigðar fínlegar grænar greinar. Greinarnar eru einnig liðskiptar, með slíðri við hvern lið. Neðsti greinakransinn er smávaxinn, en þó lengri en stöngulslíðrið (öfugt við vallelftingu).
Klóelfting myndar jarðstöngla sem geta náð allt að 2 metra dýpt. Á þeim má finna smávaxin, kolsvört hnýði er kallast sultarepli en þau eru forðabúr jurtarinnar yfir veturinn. Klóeftingin nýtir forðann til þess að mynda grókólfa snemma vors. Þeir eru m.a. kallaðir skollafætur eða tröllafingur. Þeir hafa afar einkennandi útlit, bera rauðbrúnar gróhirslur, 0,5-2 sm á lengd með bjöllulaga stöngulslíður.
Tegundinni er oft ruglað saman við vallelftingu, enda nauðalíkar frænkur. Greinar klóelftingarinnar eru grófari og uppsveigðari en greinar vallelftingar. Greinar vallelftingar eru fíngerðari og láréttar eða slúta lítið eitt. Toppur klóelftingarinnar myndar frekar spíss, því stöngulendinn stendur gjarnan upp úr á meðan valleflftingin er fremur kollótt efst.
Útbreiðsla
Tegundina er að finna um allt land allt frá sjávarmáli upp í um 1.000 m hæð.
Kjörlendi
Vex við afar fjölbreytt skilyrði. Bæði í ræktarjörð og úthaga, mólendi, flögum, skógum, valllendi og fjallamelum. Tegundina er oft að finna þar sem eitthvað rask hefur átt sér stað og er fljót að nema þar land.
Annað áhugavert
Hnýðin á jarðstönglunum, sultareplin, eru sæt á bragðið og sögð minna á heslihnetur. Best er að grafa þau upp snemma að vori áður en plantan er búin að nýta forðanæringuna úr þeim.
Vallelfting – Equisetum pratense
Útlit
Greinótt, 5-40 sm há elfting. Stöngullinn er liðskiptur og við hvern lið er slíður með 10-18 svörtum tönnum og út frá liðamótunum vaxa jafnmargar kransstæðar greinar. Greinarnar eru grænar, fínlegar, láréttar eða niðursveigðar. Neðsti greinakransinn er smávaxinn, minni en stöngulslíðrið.
Gróbærir stönglar (vorstönglar) vaxa samtímis þeim grólausu, ólíkt klóelftingunni. Gróbæru stönglarnir eru móleitir í fyrstu og greinalausir með sporöskjulaga gróaxi á toppnum. Þeir grænka síðan þegar líður á sumarið og greinar taka að myndast. Þessir stönglar mynda lengri greinar, en verða lægri (10-20 sm) en þeir grólausu.
Útbreiðsla
Algeng um allt land upp að 700 m h.y.s.
Kjörlendi
Vex einkum í þurrum jarðvegi, mólendi, skógarbotnum og graslendi. Tegundin er afar skuggþolin og getur því þrifist í skuggsælum skógarbotni laus við samkeppni frá flestum öðrum plöntum.
Annað áhugavert
Inúítar í Alaska notuðu plöntuna sem vetrarfæði, geymda í selsfitu.
Skógelfting – Equisetum sylvaticum
Útlit
Greinótt, 15-40 sm há elfting. Grólausir stönglar eru grænir, uppréttir og liðskiptir. Við liðamótin eru 2-4 brúnar slíðurtennur og út frá þeim vaxa kransstæðar, oft niðursveigðar greinar. Greinarnar á skógelftingu greinast á ný, en slíkt gerist ekki hjá öðrum elftingum á Íslandi og því einfallt greiningareinkenni.
Gróbærir stönglar eru 10-20 sm á hæð, ógreindir, rauðbrúnir með grunnum rákum. Að lokinni gróþroskun grænka þeir og á þeim vaxa greinar.
Útbreiðsla
Afar sjaldgæf tegund sem aðeins er að finna á örfáum stöðum á Aust- og Vestfjörðum. Allir fundarstaðirnir eru undir 200 m h.y.s. Skógelftingin hefur að öllum líkindum verið mikið algengari á Íslandi fyrr á öldum þegar skógar þöktu stóran hluta láglendis.
Kjörlendi
Vex í bæði í skóglendi og deiglendi, oft meðfram lækjarsytrum.
Annað áhugavert
Skógelfting getur myndað þétt og djúpt net af jarðstönglum sem verða afar langlífir.
Eski – Equisetum hyemale
Útlit
Greinalaus (oftast), 15-40 sm há elfting. Stöngullinn er liðskiptur, sígrænn, með afar áberandi slíðri og slíðurtönnum, 10-25 talsins. Stöngullinn er gildur og þakinn röðum af kísiltönnum sem gefur honum áferð líkt og á sandpappír. Stöku sinnum geta örsmáar greinar myndast efst á toppi gamalla stofna, eða við sár á stönglinum.
Eski er gjörólík öðrum elftingum, nema bróður sínum beitieski. Eski er þó með áberandi gildari stofn og meira holrými í stönglinum. Beitieski greinist einnig neðst.
Útbreiðsla
Finnst um allt land, frá láglendi upp í 600 m hæð. Vex strjált og hvergi áberandi nema þar sem friðað hefur verið fyrir beit í lengri tíma. Myndar nú áberandi breiður víða í eldri skógarreitum.
Kjörlendi
Vex í grýttri og sendinni jörð en einnig í kjarri og skóglendi.
Annað áhugavert
Plantan var nýtt til þess að fægja potta og pönnur vegna hins hrúfa yfirborðs og var því kölluð fægingarelfting.
Beitieski – Equisetum variegatum
Útlit
Greinalaus (nema neðst) 10-35 sm há elfting. Stöngullinn er mjósleginn, þakin kísiltönnum. Líkt og hjá eski er hann liðskiptur, hrjúfur, harður og ógreindur nema neðst nálægt svörtum jarðstönglinum.
Útbreiðsla
Algengt um allt land, frá sjávarmáli allt upp í 1.000 metra hæð.
Kjörlendi
Vex við fjölbreyttar aðstæður á þurrlendi; í móum, melum, grjóturðum og skógarbotnum.
Annað áhugavert
Blendingur beitieskis og eskis nefnist eskibróðir. Blendingurinn er útlitslega líkt og millistig þessara tveggja tegunda að stærð og grófleika.
ElftingabreiðaLjósmyndari: Ragnhildur Freysteinsdóttir | Eski í HeiðmörkLjósmyndari: Ragnhildur Freysteinsdóttir |
---|---|
Elftingabreiða í KjarnaskógiLjósmyndari: Ragnhildur Freysteinsdóttir | ElftingLjósmyndari: Ragnhildur Freysteinsdóttir |