top of page

Jafnaskarðsskógur

-Upplýsingar

Ábyrgðaraðili: Skógræktin

 

 


 

 

 

Almennt um skóginn

Jafnaskarðsskógur er eitt best varðveitta útivistarleyndarmál landsins, aðeins steinsnar frá höfuðborginni. Skemmtilegur göngustígur með góðu útsýni liggur um skóginn, þar sem m.a. sést vel yfir hið fallega Hreðavatn. Svæðið er í rúmlegar einnar klukkustundar akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og því kjörinn staður til að eyða deginum með fjölskyldunni


Staðsetning og aðgengi

Til að komast í skógana er beygt til vesturs af þjóðvegi nr. 1 í Grábrókarhrauni, skammt sunnan við Bifröst. Jafnaskarðsskógur liggur í brekkunni suðvestan við Hreðavatn. Ekið er framhjá Hreðavatnsbænum, þar sem skógarvörður Skógræktarinnar á Vesturlandi hefur aðsetur og ungur skógur er ræktaður. Ekið er

 

suður með vesturströnd Hreðavatns, framhjá nokkrum sumarbústöðum, áður en komið er að merktu bílastæði í skóginum. Vegurinn var bættur verulega árið 2006 og er fær öllum bílum.


Aðstaða og afþreying

Um 1995 var lagður göngustígur um Jafnaskarðsskóg. Hann liggur um hávaxinn skóg og kjarrivaxnar hlíðar, meðfram fossóttum giljum og upp á hæðir þar sem opnast stórkostlegt útsýni í allar áttir. Göngustígurinn í Jafnaskarðsskógi er einn sá besti á landinu, með hæfilegri blöndu af léttum og nokkuð bröttum köflum. Það tekur rúmlega klukkustund að ganga hann allan.


Saga jarðarinnar

Skógræktin keypti jörðina Jafnaskarð árið 1939. Fjórum árum seinna var jörðin seld aftur en 150 ha skóglendis haldið eftir. Sama ár, 1943, var bátur keyptur svo hægt væri að komast að skóginum yfir Hreðavatn með girðingarefni. Upphaflega voru þar lágvaxnar kjarrleifar og var landið keypt til að friða þær, auk þess sem hugmyndir voru uppi um að Jafnaskarð yrði aðsetur skógarvarðarins á Vesturlandi en aldrei varð úr því


Trjárækt í skóginum

Þar sem land í Jafnaskarðsskógi er ágætlega gróið var sjálfsáning birkisins hæg þrátt fyrir friðun. Þegar gróðursetning innfluttra trjátegunda hófst að ráði um 1950 var Jafnaskarðsskógur enn mjög gisinn og því var talsvert gróðursett þar. Mest var gróðursett af rauðgreni og skógarfuru og nokkuð af sitkagreni og stafafuru. Skógarfuran drapst að miklu leyti vegna furulúsar og er því lítið af henni eftir. Rauðgrenið óx fremur hægt framan af en er nú komið í góðan vöxt. Sitkagrenið hefur vaxið best enda voru betri svæði valin fyrir gróðursetningu þess. Með tímanum hefur birkikjarrið einnig breiðst út og þekur meirihluta svæðisins.

 

Annað áhugavert

Hreðavatn er nokkuð stórt stöðuvatn við skóginn, eða 1,14 ferkílómetrar og dýpst um 20 m. Veiðileyfi fást í vatnið en í því er smávaxin bleikja og urriði.

Fyrir ofan og innan Hreðavatnsbæinn má finna gamlar surtarbrandsnámur. Þar má einnig finna plöntusteingervinga frá hlýviðrisskeiðum tertíertíma.

 

Fengið með leyfi frá: www.skogur.is

 

 

 

 

 

 

bottom of page