top of page

Snæfoksstaðir

-Upplýsingar

Ábyrgðaraðili: Skógræktarfélag Árnesinga

 

 


 

 

 

 

Opinn skógur við Kolgrafarhól á Snæfoksstöðum er í alfaraleið og tilvalinn útivistar- og áningarstaður. Tenging er frá Biskupstungnabraut að hringtorgi í skógarjaðrinum, þar sem eru góð bifreiðastæði. Í skóginum eru góðir göngustígar, útsýnisskífa á Kolgrafarhóli og rjóður með bekkjum og borðum. Mikilvægt er að gönguleiðinni sé fylgt og viðkvæmum gróðri hlíft.

 

Lýsing


Snæfoksstaðir í Grímsnesi í Árnessýslu voru fyrrum kirkjustaður og prestsetur. Jörðin var eign Skálholtsstóls öldum saman, en á 19. öld kemst hún í eigu ættar sem bjó þar fram undir miðja síðustu öld. Jörðin Snæfoksstaðir er 749 ha að stærð og mikil hlunnindajörð. Nú vex þar upp skógur á hundruðum ha og blasir að nokkru við vegfarendum sem um þjóðveginn fara. Hæstu skógarlundina er að finna í Skógarhlíð á bökkum Hvítár. Sveitin milli Sogs og Hvítár heitir Grímsnes og er kennd við Grím þann, sem nam þar land að sögn Landnámabókar. Eins og nafnið bendir til er Grímsnes neslaga, 12 km breitt neðst en um 20 km efst. Um neðanvert Grímsnes er landslagið víðast hvar mótað af hraunum sem þekja 54 km², öll runnin eftir ísöld frá nokkrum eldstöðvum, sem dreifðar eru um miðja sveitina. Taldir eru þar 10 mismunandi hraunstraumar, allir apalhraun, mjög samanrunnir og eðlislíkir og þaktir gróðri; birkikjarri, víðikjarri og mólendi. Um ofan- og austanvert Grímsnes, þegar hrauninu og kjarrinu sleppir, eru víðáttumikil móa og mýrarsvæði. Eldstöðvar i Grímsnesi eru: 1) Tjarnhjólar, fjórir gígar, einn þeirra er Kerið. 2) Seyðishólar, tvær sjálfstæðar eldstöðvar. 3) Kálfhólar, tveir gígar vestur af Seyðishólum. 4) Álftarhóll, syðstur og vestastur, sunnan Álftavatns. Aðrar smærri eldstöðvar eru: Selhóll, Kolgrafarhóll, Rauðhólar og Borgarhólar. Sveitinni hallar nokkuð jafnt ofan frá Lyngdalsheiði í norðri og suður að mörkum Sogs og Hvítár. Heitir þar Skógartangi.

Skógrækt


Skógræktarfélag Árnesinga keypti jörðina Snæfoksstaði árið 1954 og var hafist handa við að girða af landið en sumarið 1956 var fyrst gróðursett. Árið 1958 hófst sumarvinna barna og unglinga frá Selfossi, sem stóð óslitið, með tilstyrk Selfosshrepps, næstu 12 árin. Á þessu árabili var skógurinn við Kolgrafarhól gróðursettur.

Skógræktarfélag Árnesinga
Félagið var stofnað í Tryggvaskála á Selfossi, 2. nóvember 1940. Fyrstu verkefni félagsins voru gróðursetning í fyrirhugað samkomusvæði á Laugardælavöllum, Glymskóga, í samvinnu við Kaupfélag Árnesinga og samtímis ræktun skrúðgarðs á Selfossi, Tryggvagarðs, til minningar um 50 ára afmæli Ölfusárbrúar árið 1941. Eftir árið 1950 voru stofnaðar félagsdeildir í öllum hreppum sýslunnar.

 

bottom of page